„Ósköp ertu dapur á svipinn,“ sagði Ásta þegar hún gekk framhjá bókaherberginu og svo bætti hún við: „Er eitthvað að?“ Það var kökkur í hálsinum á mér svo að ég kom mér hjá því að svara, snéri í hana baki og horfði út um gluggann. Það voru mistök.
Hún kom inn og rannsakaði andlitið á mér. „Ertu klökkur,“ spurði hún svo og „hvað er að?“ Ég þurfti að kyngja tvisvar áður en ég gat svarað henni: „Canta, cantabile,“ stamaði ég loks. „Cantabile?“ endurtók hún með spurningahreim. „Já, Adagio Cantabile, Pathétique, þú veist.“ „Klökknarðu enn yfir henni?“ spurði hún og strauk með hendi um vanga minn. „Ég ræð ekkert við það,“ svaraði ég.
Og það er tilfellið. Með aldrinum nær sónatan að strjúka viðkvæmustu strengi í sálinni og hrífa mig með sér. Þegar kemur að öðrum kaflanum, Adagio Cantabile, þá endurtekur þessi sterka upplifun sig enn og aftur, fjörutíu árum eftir fyrstu kynnin. Það var þá sem hún gerðist ein af yndis vinum mínum og vekur síðan, stöðugt, upp þessar hrærandi tilfinningar sem varna mér máls.
„En er nokkur ástæða til verða dapur og klökkna,“ spurði Ásta af sinni stöku mildi, „er þetta ekki hamingju tilfinning sem þú upplifir?“ „Jú, auðvitað,“ svaraði ég henni, „en einn af leyndardómum andans felst í orðum ritninganna þar sem segir: „Þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel.““
Svo tók ég bókastaflann úr gestastólnum og bauð Ástu sæti, setti diskinn af stað aftur:
Píanósónata Nr. 8 í C minor, op. 13, eftir Ludwig van Beethoven. Á píanói Wilhelm Backhaus.