Já, vel á minnst, fólkið, hvað er það?

„Það er alltaf verið að tala við mig um eitthvað, sem kallað er fólk, og mér er ekki ennþá fullkomlega ljóst, hvað átt er við. Stundum held ég, að það sé kannski vinur minn Dósóþeus Tímóteusson eða eitthvað svoleiðis, en það er víst ekki rétt. Í minni sveit var þónokkur slæðingur af huldufólki, en nú heyri ég sagt að það hafi alltsaman verið tilbúningur og vitleysa. Nei, við náum víst aldrei til „fólksins“ …“

Ofanskráð er setning úr viðtali Steingríms Sigurðssonar við Stein Steinarr, fyrir tímaritið Líf og List og er í bókinni Steinn Steinarr, Leit að ævi skálds, seinna bindi, eftir Gylfa Gröndal.

Dagurinn er að sjálfsögðu dagur Steins Steinars. Manninum sem sagði margt hnyttið og ógleymanlegt, eins og til dæmis eftirfarandi ljóð:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Þegar ég var ungur drengur og fór niður í bæ, eins og það hét á þeim árum, og sá eða mætti Steini, einum eða í fylgd með öðrum sérkennilegum körlum, þá varð ég stundum hálf smeykur.
Svo hætti ég að vera hálfsmeykur og tók að lesa ljóðin hans. Sennilega ekki fyrr en hann var látinn. Hef haft mikla ánægju af ljóðunum hans og er þakklátur fyrir þau.

Mig langaði rétt si svona að nefna manninn í tilefni dagsins. Hæfara fólk en ég mun gera honum verðug skil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.