Aðeins höfuðin standa upp úr

Á einni af myndum Botticelli´s, við ljóðabálkinn La Divina Commedia eftir Dante, má sjá fólk berjast um í stóru fljóti. Aðeins höfuðin standa upp úr.

Á fljótsbakkanum eru mannskrímsli með langa krókstjaka í höndum. Þau glíma við að hindra drukknandi fólkið í að ná landi og ýta því á kaf.

Þessi mynd kemur oft upp í hugann á þessum vondu tímum, þegar lítilmagninn á sér enga von í gjörningastormum misvitra fjármagnsspekúlenta sem höguðu sér líkt og Ikaros, en sagan um hann er fræg og alkunn:

„Faðir hans, völundurinn Dedalos, gerði honum vængi að hann mætti fljúga og eru þeir festir á axlir hans með vaxi. Ikaros flaug æ hærra og að lokum svo nærri sólinni að vaxið bráðnaði. Féll hann þá í hafið og drukknaði.“

Ánægjulegt væri að heyra rödd sem hefði sama áhuga á að styðja venjulegt fólk, alþýðu manna, af sama afli og valdamennirnir nú leggja sig fram um að bjarga þeim efnuðu.

En er sú rödd til í íslensku þjóðfélagi?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.