Einstök eik er fallin

Sigurbjörn Einarsson biskup lést í gær. Í hárri elli. Hann var meistari Orðsins og jöfur tungunnar. Málfar hans og vandvirkni í ræðu og riti báru af í íslenskum menningarheimi.
Allt til síðasta dags.

Bækur hans, sálmar og prédikanir, voru þrungin af mannviti og speki. Töfrar íslenskrar tungu og viska himinsins einkenndu ræður hans.

Dýrð Guðs, Jesús Kristur og náð hans, voru honum eðlileg nærvera. Hann deildi henni með þjóðinni af hrífandi einlægni.

Nú er þessi einstaka eik fallin.

Það verður seint fyllt í það skarð sem myndast við fráfall dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups.

Hluttekningu og samúð auðsýnum við hjónin öllu hans húsi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.