Karl og kerling í koti sínu

Það flæðir einskonar unaðshrollur um mig, þegar ég skoða í rólegheitum bækurnar sem okkur bárust um jólin. Flestar komu þær í fallegum jólapökkum frá örlátum gefendum. Aðrar höfðum við sjálf keypt á aðventunni. Allar, að heita má, eiga þær það sameiginlegt að gleðja, lyfta og víkka.

Það er samt ekki laust við að feimni tilfinning fari um mann þegar bókunum er safnað saman á einn stað. Alls á þriðja tug bóka. Og maður verður bljúgur og hógvær innan um þessa stórkostlegu höfunda sem bæði eru ljúflingar og spekingar. Þarna eru þeir Davíð, Snert hörpu mína og Jónas, Undir Hraundranga. Þá eru Söngvarnir frá Písa eftir Pound og Sál og mál Þorsteins Gylfasonar þar einnig.

Með sérstakri lotningu er tekið utan af Lærdómsritum Bókmenntafélagsins. Þar eru bækur eftir Aþanasíus, Kant, Voltaire, Sartre, Schleiermacher, Zizek og Þeófrastros. Það er alvöru félagsskapur sem mun kosta talsvert álag á fækkandi heilafrumur að glíma við. Heilafrumur sem aldrei voru neitt sérstaklega margar.

Sagði við dóttur mína Gunnbjörgu, sem hefur þjálfað lestur, nám og akademíska hugsun í háskólum um langt árabil, að einfaldir verkamenn eins og pabbi hennar, yrðu að klífa þessi fjöll með hvíldum ætluðu þeir sér alla leið.

Já. Þetta hafa verið elskuleg jól. Nú erum við tvö, karl og kerling í koti sínu. Friður og kyrrð er yfir og allt um kring. Dagurinn hófst við Horngluggann, hversdagslegur og einfaldur eins og við sem þar sátum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.