Tvær myndir og franskur hattur

Það er mikill vandi að eiga margar ljósmyndir. Og það er ekki sársaukalaust að glíma við að safna þeim í tölvu. Hluti af þessum vanda er ör þróun í ljósmyndun, framköllun, geymsluaðferðum og svo frv. Hef stundum tekið mig á og reynt að skanna inn í tölvuna gamlar myndir. Þar hafa þær lent í óskipulögðum möppum, hundruðum saman, hingað og þangað. Hélt í morgun að ég væri í góðu standi til að taka svolítið til.

Þegar ég byrjaði að flytja svarthvítar myndir á milli mappa, rakst ég á tvær sem fengu mig til að gleyma myndarskapnum og rifja upp tilorðningu þeirra. Það var fyrir þrjátíu og fimm árum. Við Ásta höfðum farið í lítinn sunnudagsbíltúr og ég tók myndavélina með. Þegar við ókum Skúlagötuna, sem þá var næst sjónum, og bensínstöðin Klöpp enn á sínum stað, sáum við þetta stóra farþegaskip á ytri höfninni á rjómasléttum sjó. Á þessum árum þóttu skemmtiferðaskip fréttaefni. Ásta, sem sjaldan var fús að vera fyrirsæta, lét það þó eftir.

Á Skúlagötu

Myndirnar eru teknar á Pentax Spotmatic vél, filmu Tri-X, 400 ASA. Síðan eru þær framkallaðar um nótt í eldhúsi á fjórðu hæð í Álfheimum. Það voru frumstæð skilyrði. Hengdum við lak fyrir eldhúsgluggann til að útloka birtu frá næstu blokk og Ásta á náttkjólnum á vaktinni að gæta þess að börnin kæmu ekki óvænt fram úr herbergjum sínum til að fara á klósett.

Fyrirsæta með franskan hatt

Svo liðu mörg ár. Og enn fleiri. Rakst svo á myndirnar í morgun. Hattinn, sem Ásta er með á myndunum, kölluðum við „franska hattinn“. Mér fannst hann alltaf svo flottur. Örlög hans réðust eitt kvöld á horni Laugavegs og Bergstaðastrætis. Vorum við þar á göngu í roki og rigningu. Fátt annað fólk á ferli. Allt í einu reif vindhviða hattinn af Ástu og þeytti honum beint upp í loft, upp fyrir húsin og norður yfir þau. Ég reyndi að fylgja honum með augunum ef hann skyldi lenda einhversstaðar. Við sáum hann aldrei meir.

Þetta er lítil frásaga um tvær myndir og hatt.

4 svör við “Tvær myndir og franskur hattur”

  1. Satt segir þú minn kæri.
    Ég fékk í hnén þegar ég rakst á myndirnar.
    Rétt eins og í gamla daga.
    Kær kveðja til þín í Grænlandi.

  2. Glæsileg er hún móðir okkar að vanda.

    Kveðja Nonni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.