Svo allt í einu ertu einn

Í hausthúminu lítur maður til baka yfir tímabilin í ævi sinni og þykist skilja að þau hafa helgast af mismunandi menningarviðhorfum og því fólki sem hverju viðhorfi tilheyrði og maður lifði með eða tileinkaði sér hverju sinni.

Svo reynir maður að finna út hvar manni hafi hugsanlega fallið best, í hópi hvaða menningarviðhorfa maður hafi komist næst því að finna sjálfan sig heima í, og uppgötvar, sér til undrunar, að slík híbýli voru harla fá.

Flest tímabilin einkenndust af tekjumöguleikum til framfærslu fjölskyldu með sárafáum undantekningum. Nytsemi manns hefur því verið lykillinn að hópunum sem maður fékk aðgang að hverju sinni en, vel að merkja, veitti aðgang að samt.

Það er því þegar dagar nytsemi einstaklinganna eru taldir að þeir sitja uppi með það að þeir eru einir á báti. Og það er undarleg tilfinning sem ekki er einfalt að vinna úr. Ungir að árum gátu menn látið sig dreyma um að fara þennan eða hinn veginn. Þeir voru allir framundan. Hvað ætli menn dreymi að nytsemi lokinni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.