Við vorum viðstödd kaþólska barnaskírn í gær. Það var í fyrsta sinn. Athöfnin var öll hin fegursta. Foreldrarnir ljómuðu af ánægju og gleði sem og skírnarvottarnir. Aðrir aðstandendur samglöddust og tóku virkan þátt í söngnum. Séra Jakob Rolland, prestur við Kristskirkju á Landakotstúni, framkvæmdi skírnina sem fram fór í Skálholtsdómkirkju.
Tvær myndir og franskur hattur
Það er mikill vandi að eiga margar ljósmyndir. Og það er ekki sársaukalaust að glíma við að safna þeim í tölvu. Hluti af þessum vanda er ör þróun í ljósmyndun, framköllun, geymsluaðferðum og svo frv. Hef stundum tekið mig á og reynt að skanna inn í tölvuna gamlar myndir. Þar hafa þær lent í óskipulögðum möppum, hundruðum saman, hingað og þangað. Hélt í morgun að ég væri í góðu standi til að taka svolítið til.