Svo eitthvað sé nefnt

Kvöddum Litlatré í gær. Það var eftir þrjátíu daga viðveru. Væg saknaðartilfinning vaknaði í brjóstinu. Við hjartað. Umferð var með minnsta móti og háttvís og afslöppuð. Aðeins einn sem ekki réð við sig. Hann þeytti fram úr eins og hviss, undir Hafnarfjalli. Sá hann greiða gjald í göngin. Gladdist yfir veglyklinum í bílnum mínum. Hann leyfði mér að aka viðstöðulaust. Þetta var fyrir hádegi.

Daginn áður fórum við í einskonar kveðjuferð, stutta, um dali sem orðið höfðu útundan á sumrinu. Á fyrstu metrunum ókum við fram á unga konu í morgungöngu. Samskiptagenið í mér ákvað að heilsa og bjóða góðan dag. Konan tók okkur vel. Hún spurði Ástu hvort það væri alltaf rok. Það verður blíða eftir hádegi, greip ég frammí, sól og logn.. Það reyndist rétt.

Leiðin lá fyrst um þann hluta Reykholtsdals sem fæstir fara. Þá er beygt til hægri við Úlfsstaði og ekið yfir brúna á Reykjadalsá á móts við Steindórsstaði. Þarna eru mikil tún og heyskapur að baki. Snyrtimennska og baggastæður hrífandi dæmi um dugnað og elju. Framar í dalnum er Rauðsgil. Þar fæddist Jón Helgason skáld og bókavörður í Kaupmannahöfn.

Upp með Rauðsgili liggur vegslóði upp í heiðarnar og suður í Þingvallasveit. Sáum einmitt um það bil tuttugu manna hóp ganga í halarófu inn með ánni og allir með bakpoka. Drógum þá ályktun að hópurinn ætlaði sér að ganga vegslóðann yfir heiðina vestan við Oköxl. Og nú tók að birta til og sólin að skína. Allstór hópur hesta þyrlaði upp ryki á reiðvegum handan við ána. Reiðmenn fóru fyrir, aðrir ráku.

Á leiðinni niður dalinn er ekið fram hjá Kópareykjum þar sem Jónas Árnason bjó og orti sína þjóðkunnu bragi og ljóð við tónlist bróður síns Jóns Múla. Flinkir menn. Þá býr Flosi Ólafsson einnig á þessum slóðum og loks er þarna Logaland. Félagsheimili sem margar minningar fyrri ára tengjast. Þegar menn sungu fullum hálsi slagarann, „What you´ve done to me“, og íslenskuðu hann um miðnætti: „Ó, ó,ó,ó hvað hefurðu gert við mig, ég er með kúlu á maganum eftir þig.“

Loks lá leiðin um Lundareykjadal. Fórum fram dalinn að norðanverðu. Sól skein í heiði. Logn. Sveitin í sínum fegursta búningi. Geislaði.

Grímsá með glitrandi flöt.
Stöku maður með stöng.
Tindrandi há á túnum.
Hjarðir kúa í hvíld.
Jórtrandi ær og lömb í leik.

Við ókum löturhægt. Sögðum fátt. Virtum fyrir okkur stórbýlið á Skálpastöðum, kirkjustaðinn Lund, Oddstaðarétt. Svo eitthvað sé nefnt..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.