Gjörningar og pex

Þetta var dagurinn sem Ásta hafði ákveðið að mála hurðina að utan og bitana sem bera skyggnið. Það hafði dregist úr hömlu. Hún var komin snemma út og þegar hún hafði málað um hríð þykknaði upp og skömmu síðar tók að rigna. Og það rigndi og rigndi og rigndi. Og rigndi. Dásamlega. Hellirigndi. Ásta stóð þarna og hélt á penslinum í annarri hendi og málningardósinni í hinni. Orðlaus.

Í framhaldi var ákveðið að fara til Reykjavíkur og setja í þvottavél. Ásta pantaði og tíma í klippingu. Svo að ég sit hér við tölvuna og tek til í myndavélinni og blogga smávegis um dagana sem eru að baki. Við förum aftur í sveitina síðdegis. Maður sér hlutina í öðru ljósi, staddur utan við hversdagslega umgerð og les fréttir öðrum augum.

Við fáum Moggann sendan í Reykholt. Þangað kemur hann á miðjum degi og við sækjum hann. Helgarblöðin fær maður ekki fyrr en á mánudegi. Laugardags, sunnudags og mánudagsblöð í einum bunka. Um þrjúleytið. Og sökkvum okkur í lestur og veltum okkur upp úr blöðunum. Það vekur furðu að Blaðið og Fréttablaðið berast bara endrum og sinnum í pósthúsið. Sýnist það vera svik við þá sem borga fyrir auglýsingar í þeim.

Þegar við heyrum af umferðarstíflum, lentum raunar í einni slíkri á Vesturlandsvegi, frá Mosfellssveit og langt upp í Borgarfjörð, þúsundum bíla og mörg þúsund manns, sem ekki komast leiðar sinnar klukkustundum saman, helgi eftir helgi, þá sjáum við fyrir okkur ábúðarmikinn og sjálfsánægðan ráðherra samgöngumála útskýra fyrir þjóðinni í sjónvarpi hvað Héðinsfjarðargöngin eru nauðsynleg og þjóðhagslega stórkostleg framkvæmd sem gagnast muni landsmönnum öllum.

Annar ráðherra kom inn á það að eðlilegt væri að allir gengu jafnir til innritunar í flug í Flugstöðinni í Keflavík. Að þeir efnuðu hefðu ekki forgang. En eru svona orð ekki bara bull? Eru ekki þeir efnuðu á Íslandi allstaðar með forgang? Hvað segja laxveiðimenn? Hvað segja skotveiðimenn? Hvað með kvótakaup? Hvað með jarðakaup? Er ekki búið að greiða svo götu fjármálamanna undanfarin ár að þeir virka eins og ríki í ríkinu? Og ráða því sem þeir vilja ráða. Borga svo gjöldin af góssinu eins fjarri landinu og kostur er.

Alþingi er í sumarleyfi. Okkur almúganum er þá hlíft við því að hlusta á bullið í nýliðunum í fjölmiðlum, þingmönnum sem berja sér á brjóst og álíta að með valdi verði þeir vitrir. Nóg var af bulli fyrir. Hvað ég eigi við með því? Dæmi: Um viðbrögð við skerðingu þorskkvóta: Hvernig á vegagerð sem framkvæmd er með jarðvinnuvélum og vörubílum að nýtast konunum og aðfluttu íslendingunum sem höfðu lífsviðurværi af því að skera þorsk?

Þá var og fróðlegt að hlusta á nýja framsóknarþingmanninn skipta um skoðun á hvalveiðum á tveim vikum.

Fjölmiðlar flagga mótmælendum örlátlega þessa dagana. Ekki blasir við hversvegna þeir gera það. Fólkið er einfaldlega að skemmta sér. Það hvarflar ekki að mér að þátttakendur myndu leggja nein alvöru verðmæti í sölurnar fyrir málstaðinn sem það þykist vera að „berjast fyrir“. Það sem þau gera kostar þau ekkert. Og þau elska athyglina sem þau fá.Undarlegt að fylgjast með þætti fjölmiðlanna í gjörningunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.