Forgarður helvítis

Fyrir skömmu bárust af því fregnir að kaþólskir hefðu ákveðið að leggja af svokallaðan forgarð helvítis, öðru nafni limbó, stað þar sem óskírð börn og þeir sem ekki hlutu blessun Krists í lifandi lífi, lentu. Það sem vekur athygli er að forgarður helvítis er staður sem menn fundu upp og ákvörðunin um að leggja það niður er því ákvörðun manna um að breyta ákvörðun annarra manna.

Þetta kemur upp í hugann þegar fregnir af prestastefnu 2007 berast. Einhvern veginn verka fregnirnar þannig á mig að samúð með prestunum fyllir sál og huga. Það gerðist einnig fyrir fáeinum vikum þegar í ljós kom að nokkrir „þjónandi“ prestar þjóðkirkjunnar höfðu neitað að ferma börn sem ekki voru á meðlimaskrá þjóðkirkjunnar. Samúð með prestum.

Í umræðu um tóbaksreykingar fyrir allmörgum árum, í stjórn safnaðar þar sem ég þekkti til, klingdi einn stjórnarmanna út með það að hann gæti aldrei samþykkt meðlimi sem reyktu. Sannað væri að tóbak dræpi fólk. Mér varð á að spyrja manninn hvort hann æki bíl, sem hann kvað já við. Þá spurði ég hann hvort hann gæti samþykkt meðlimi sem ækju bílum, þar sem sannað væri að bílar dræpu fólk. Við því fékk ég ekki svar. Það var svo í afmæli eins stjórnarmanns safnaðarins að umræddur maður neitaði að heilsa mér með handarbandi.

Fjölmiðlar segja frá því um þessar mundir að hindúar á Indlandi hafi ákært Richard Gere, kvikmyndaleikara, fyrir að kyssa þarlenda leikkonu uppi á sviði í heimalandi hennar. Töldu herskáir „trúmenn“ að Gere hefði ráðist á indverska menningu og siði og móðgað þá mjög.

Á undanförnum misserum höfum við heyrt fregnir af kröfum svokallaðra innflytjenda til Evrópu, um að þeir fái að halda siðum sínum og sérkennum þótt þau brjóti í bága við evrópska menningu og siði. Hafa deilur þær oft verið óvægnar og mesta ósamræmið milli menningarheimanna birst í svokölluðum „heiðursmorðum“, sem felast í því að ættmenni stúlku, innflytjanda sem festir ást á evrópskum karli, skuli myrða hana, til að halda uppi því sem þau kalla „heiður“ trúar þeirra og siðum.

Víst verða fákænir undrandi á öllum þessum „mannasetningum“ sem ákveðnir hópar fólks á öllum svæðum tilverunnar hafa í hávegum. Og það vakna með manni spurningar um orsökina fyrir þessum forgörðum helvítis sem fæðst hafa í hugskoti örfárra og orðið að allsherjarreglum. Hlýtur það ekki að hafa eitthvað með manngerðina að gera? Eru ekki einhverjar flækjur undirliggjandi í geðinu hjá sumum þeirra, flækjur vaxnar upp af minnimáttarkennd sem snýst í andhverfur sínar?

Nietzsche kom inn á þetta stundum. Og það hvarflar að manni að Guð sé ekki með mjög miklu lífsmarki í hjörtum þeirra sem taka sérsmíðaðar reglur, svo sem um forgarða helvítis þeirra kaþólsku, fram yfir fólk, menn, karla, konur og börn, þrátt fyrir orð allra trúarbragða um að af eiginleikum þeirra, markmiðum og eðli sé kærleikurinn mestur.

2 svör við “Forgarður helvítis”

  1. Ynnilega sammála. Hafa sína eigin trú og ekki láta hræra sig fram og til baka í mannasetningum og heilagleika annarra manna. Góður pistill.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.