Samfélag alsælunnar eða himnaríki fíflsins

Eftir uppistandið á laugardag, sjá hér, var það eiginlega ekki fyrr en í morgun sem ástríðan í blaðalestur endurheimtist að fullu. Hafði tekið frá tvær álitlegar greinar og sett í bið á meðan ég beið eftir sálinni. Það var svo í morgun sem kerfið virtist komið í nothæft ástand.

Fyrri greinin er í Lesbók s.l. laugardag. Heitir hún Á vígvelli siðmenningar og er eftir Matthías Johannessen, skáld og rithöfund. Sú síðari, sem einnig er í Morgunblaðinu, birtist í tveim hlutum, sunnudag og mánudag, ber heitið Auðlindir og arður, og er eftir Indriða H. Þorláksson, hagfræðing. Hvet ég allar læsar manneskjur til að lesa greinar hans.

En það er grein Matthíasar sem hefur haldið mér föngnum allan morguninn. Hún er löng, nær yfir fjórar heilsíður (sem er óvenjulegt í Lesbók) og telur tólf til þrettán þúsund orð. Greinin fjallar um siðmenningu. Matthías kemur víða við og tekur á mörgum þeirra mála sem mest áberandi hafa verið í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri og dregur hvergi af. Það er bæði fróðlegt og hollt að lesa um viðhorf hans og reynslu af mönnum og málefnum samtíðarfólks, en eins og allir vita hafa skoðanir Matthíasar ekki alltaf fallið ráðamönnum eða auðmönnum í geð.

Það er samt bókmenntalegi þátturinn í greininni sem heillar mest. Maðurinn er svo fjölfróður um skáld og rithöfunda, sem hann kallar til liðs við sig og vitnar í, að undrun og aðdáun vekur. Þannig er bókmenntaþáttur greinarinnar bókstaflega hafsjór af fróðleik og þekkingu og þó ekki væri fyrir annað en þann þátt greinarinnar er hún í raun ómissandi öllum sem eitthvað vilja með bókmenntir hafa.

Það er freistandi að telja til þá rithöfunda og skáld sem Matthías nefnir, njóta þess að skrifa nöfn þeirra, innlendra sem útlendra, menn frá öllum tímum siðmenningar. En þess í stað leyfi ég mér að hvetja alla sem ég næ til, til að láta grein Matthíasar ekki fara fram hjá sér. Lesa má greinina hér

Eitthvað kveinkar Þorsteinn Pálsson sér í leiðara Fréttablaðsins í morgun. sjá hér

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.