Aprílhitamet í Litlatré

Gærdagurinn var yndislegur. Veðrið talsvert betra en maður vogar að óska sér á þessu blessaða landi okkar. Og það í apríl. Við rismál, ( þá er átt við fótaferðatíma ) var hitinn + 11°C. Vindar af austri, suðaustri og snarpir vindsveipir allt til norðausturs. Fór í 15 til 18 m/s í sumum hviðunum. Um hádegi var hitinn orðinn + 14°C.

Í dagbók Litlatrés skrifaði ég:
Kl. 16:00. Sterkir vindsveipir af öllum áttum. Að mestu heiðskírt, en sjaldséðir skýjaflákar á himni í suðri. Hiti + 18°C.

Aprílhitamet í Litlatré

Veðurstöðin okkar, Davis, Vantage Pro 2, mælir hita úti og inni, vindhraða og vindátt og úrkomu og ýmislegt fleira. Sendir upplýsingar þráðlaust inn í hús, á skjá sem þar er. Gamlir karlar hafa mikla ánægju af svona „apparötum“ og þvaðra daglangt um veðrið.

Það varð því fátt um landbúnaðar- og jarðvinnu afrek. Að mestu setið á brókinni í sólinni og veðrið dásamað. Ýmsir kælivökvar hafðir um hönd og grillið látið hámarka daginn með kjúklingi í Hotspot sósu og Mac Cormick kryddi.

Og fleiri atriði juku við ánægju þessarar frábæru helgar. Maríuerlurnar mættu á svæðið. Þær voru fjórar saman. Í fyrra mættu þær 1. maí. Ásta kallar þær leiguliðana því þær gera sér hreiður upp undir þakskeggi. Þetta er þriðja árið sem þær gera það. Þá eru þrestirnir komnir á fulla ferð með hreiðurgerð, en þessar tvær fuglategundir hafa valið sér návist við mannfólk.

hitamet_2.jpg

Þá má og heita að öll mófuglafjölskyldan sé komin í nágrennið og í gær barst söngur úr hverri þúfu. Þær skipta hundruðum. Vildi að ég ætti upptöku af söng kórsins og gæti sett lítið brot á netið. En auðvitað þekkja allir þetta sem ég er að lýsa.

Eitt andsvar við „Aprílhitamet í Litlatré“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.