Bréfið nafnlausa og önnur mál

Við ræddum það við Horngluggann í morgun. Bréfið nafnlausa.
„Er ekki einhver nafnlaus vinur Davíðs einfaldlega að reyna að gera réttinn, dómarana og verjendur Baugsmanna, tortryggilega.“

„Hugsanlega er það. Eða óvinir Davíðs hafi stofnað það til þess að fólk álíti að vinir Davíðs hafi skrifað það til að koma höggi á þá.“
„Þá má eflaust einnig álíta að vinir Davíðs hafi stofnað bréfið til að fólk álíti að óvinir Davíðs hafi stofnað það til þess að fólk álíti að vinir Davíðs hafi stofnað það til þess að….“
„Já. Það gæti verið einhvern veginn svona.“

„Lastu um liðina nítján hjá Vinstri grænum?“
„Grautaði í þeim.“
„Sástu þetta um kynjajafnréttið?“
„Áttu við tuttugu ára áætlun þeirra um jafnrétti kynja í þjóðfélaginu?“
„Já.“
„Er hún ekki bara eins og vegaáætlun Sturlu?“
„Gæti trúað því. Það er allt hægt fyrir kosningar.“

„Svo var eitthvað um eldri borgara og öryrkja.“
„Heldurðu að eitthvað sé að marka það?“
„Það væri nú flott ef þeir reyndu að hugga okkur aumingjana.“
„Íhaldið nefnir þá aldrei.“
„Nei. Þeir láta eins og engir eldri borgarar séu til né heldur öryrkjar.“
„Og svo sjá þeir enga fátækt. Þekkja ekki einn einasta blankan bankastjóra.“
„En það sem skrítnara er, er að þeim finnst ekkert mál að til séu fátækir Íslendingar á meðan
hægt er að grafa upp þjóðir þar sem enn meiri fátækt ríkir.“
„Já, þau eru kúnstug stjórnmálin.“
„Það eru mennirnir sem gera þau kúnstug.“
„Það er verst þegar ríkisstjórnum fer að finnast þær eigi land og þjóð.“

„Ertu búinn að ákveða hverja þú ætlar að kjósa í vor?“
„Tólfta maí?“
„Já, til Alþingis.“
„Ég geng óbundinn til kosninga.“
„En ertu ekki flokksbundinn?“
„Ég geng óbundinn til kosninga samt.“
„Er það leyfilegt.“
„Frjáls maður í frjálsu landi.“
„Er nokkur maður frjáls?“
„Það er hugarástand.“
„Hugarástand?“
„Já. Ég hlýt að kjósa þá sem ég treysti best fyrir mínum hagsmunum. Alveg eins og bankastjórarnir kjósa menn sinna hagsmuna. Og útgerðarmennirnir. Og verslunarstéttin. Og lyfjafyrirtækin.“
„Er þér að snúast hugur í pólitík?“
„Ég vil einfaldlega komast af. Vil ekki að farið sé með mig eins og ég sé ekki til. Og ef einhver kallar til mín og segist vilja bæta hlut minn og minna líka, þá hlusta ég á hann. Af alefli.“

„Viltu svolítið meira kaffi?“
„Já takk.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.