Manneskja – karl eða kona? III

Þetta hefur verið heldur skemmtilegur leikur. Gaman að sjá fólk koma í heimsókn á heimasíðuna og tjá sig um málið. Eftir að hafa skoðað niðurstöður í morgun sýnist mér að sex atkvæði hafi fallið á konur en sjö á karla. Þrjú lendi úti í buskanum; hvorugkynið, drengur á fermingaraldri og Cayenne. Í stjórnmálum yrði þetta orðað svona; konur 6 atkvæði; karlar 7 atkvæði; ógild 3 atkvæði.

Þetta Bónusatvik hófst síðastliðin mánudag. Það var áður en „kartöflumúsin“ komst í sjónvarpið. Þar, um hádegisbilið, sá ég þessa undarlegu manneskju okkar haga sér við kassann eins og hún væri ein í heiminum. Sjálfur hafði ég ætlað að vera fljótur, keypti sárafá atriði, þar sem ég hef verið að glíma við að eyða ekki nema 2000 krónum á dag þennan mánuð. Þá flugu fékk ég í höfuðið við lestur pistils netvinkonu minnar sem ætlaði að prófa. Veit ekki hvernig henni reiddi af.

En nú vildi svo til í morgun að ég átti erindi í viðskiptafyrirtæki nokkurt í Reykjavík. Sérstaða þess er sú að það deilir húsnæði, hæð, með tannlæknastofum. Það gerir það að verkum að þegar inn er komið af fremri gangi þá fyllast vit manns af tannlæknastofulykt. Þið kannist við hana. Ein órómantískasta lykt sem fyrir nef manna ber og framkallar sambland af kvíða og andstyggðar tilfinningu.

Sem ég gekk inn eftir ganginum varð mér litið inn í eitt herbergi tannlæknanna, hvar dyr á voru opnar, og sá þá ekki betur en að manneskjan okkar úr Bónus stæði þar bograndi yfir sjúklingi með báða handleggina á kafi uppi í munninum á honum og borinn hvínandi. Víííííííí. Og tónlist á fullu. Og söng með. Mér varð á að stansa og stara, því að græn andlitsgríma og grænn sloppur huldu manneskjuna að mestu.

Annars hugar fór ég inn í viðskiptafyrirtækið. Þar var mér boðið sæti og kaffi og voru erindi mín rædd og gerð góð skil. Þetta tók nokkurn tíma. Að þeim loknum gekk ég fram á ganginn og ætlaði að fullvissa mig um manneskjuna. En þá voru dyrnar að stofu hennar lokaðar. Á fremri ganginum náði ég að smeygja mér inn í lyftuna sem var að lokast og þar var þá manneskjan komin. Syngjandi sama stefið og inni á stofunni.

Þegar út var komið veitti ég manneskjunni eftirför. Og þegar ég sá hana fara upp í Cayenne Porche V8 TwinTurbo, með skoðun 2010 þá sannfærðist ég um að þetta var manneskjan okkar. Tannlæknir. Um fertugt. „Ertu nokkru nær með kynið?“

8 svör við “Manneskja – karl eða kona? III”

  1. Það á aldeilis að draga þetta á langinn Afi minn. Nú hef ég breytt um skoðun aftur og tel ég þetta vera karlmann með gráa fiðringinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.