Manneskja – karl eða kona? II

Það hagar þannig til við Smáratorg í Kópavogi að þar hefur bílastæðið, að mestu, verið tekið undir byggingarframkvæmdir. Verið er að reisa þar hæsta hús á svæðinu, 17 hæðir. Samhliða er gerð bílageymsla sem verður undir fyrra bílastæði verslunarkjarnans. Til að vega á móti fækkun bílastæða á meðan byggingarframkvæmdir standa yfir, hefur Bónus beint viðskiptavinum sínum í geysistóra bílageymslu sem er undir verslunarmiðstöðinni.

Þegar ég hafði lokið innkaupum mínum í Bónus í gær og reynt að jafna mig á manneskjunni sem stíflaði umferðina á kassanum, gekk ég inn með húsinu og fór tröppur niður í bílageymsluna. Þar stóð bíllinn minn í stæði, átta ára gamall Subaro Forester. Ég nálgast hann alltaf með nokkurri ást í hjarta og ívið meiri þegar hann er nýþveginn og bónaður. Þessi elska. Í fyrra fékk hann nýjar álfelgur. Það var á afmælinu mínu.

Sem ég nú var að smella hurðaopnaranum tók ég eftir manneskjunni frá kassanum. Hún gekk eftir víðáttumikilli bílageymslunni norðan megin í salnum. Þar var aðeins einn bíll og stóð við vegginn. Honum hafði verið bakkað í stæðið. Ég fylgdist með manneskjunni. Bíllinn hennar stóð á tveim stæðum, það er að segja, hvíta strikið sem afmarkar stæðin var undir miðjum bílnum.

Manneskjan smellti opnara þegar hún átti enn ófarna marga metra að bílnum. Og nú breyttist fas hennar allt. Hún opnaði aftari hliðarhurð, skutlaði svarta innkaupapokanum í sætið. Skellti hurðinni, opnaði bílstjórahurðina, stakk sér inn í bíllinn, setti í gang og ók út úr húsinu á fullri ferð svo að hvein í dekkjunum. Ég hélt niðri í mér andanum. Bjóst við að hún mundi velta bílnum í beygjunni að útkeyrslunni. Það varð ekki. Þarna stóð ég stóð lengi í sömu sporum og reyndi að átta mig á fyrirbærinu.

Ég sá ekki betur en að bíllinn manneskjunnar væri Porsche Cayenne, V8 TwinTurbo með skoðun 2010. Pælum í því lesandi góður. Og því endurtek ég spurninguna frá því gær: Hvort heldur þú að manneskjan hafi verið karl eða kona og á hvaða aldri? Það væri skemmtilegt ef þú spreyttir þig aftur.

8 svör við “Manneskja – karl eða kona? II”

  1. Ég sé ekki fyrir mér karlmanns buddu með mörgum hólfum. Er farinn að sjá fyrir mér miðaldra konu á breytingar skeiðinu.

  2. Þetta er ellilífeyrisþegi sem er að láta gamlan draum
    rætast. Sennilega ekkill.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.