Manneskja – karl eða kona?

Það var ein manneskja á undan mér við kassann í Bónus í hádeginu í dag. Hún tíndi upp úr innkaupakörfu. Tók hlutina upp með annarri hendi. Einn í einu. Las á verðmiðann. Lagði hlutinn frá sér. Pilturinn á kassanum beið með útrétta hendi eftir því að hlutirnir kæmust til hans. Þetta voru sjö eða átta hlutir. Kannski níu. Flestir smáir. Loks var karfan tóm: „Eitt þúsund sjö hundruð tuttugu og átta krónur,“ sagði pilturinn á kassanum.

Manneskjan mjakaði sér áfram að enda færibandsins. Þangað sem vörurnar voru komnar. Seildist þvínæst í vasa á yfirhöfn sinni og dró upp svartan krumpaðan plastpoka. Nostraði við að slétta úr honum og opnaði hann síðan. Hélt pokanum svo opnum með annarri hendinni, tók hlutina upp með hinni. Einn í einu. Las á verðmiðann. Hagræddi hlutnum vandlega á botni pokans.

„Eitt þúsund sjö hundruð tuttugu og átta krónur,“ endurtók pilturinn á kassanum og mændi á manneskjuna. Manneskjan lét sér hvergi bregða. Hagræddi hlutunum vandlega. Að því loknu reisti hún pokann við gaflinn á borðinu. Færði sig að piltinum við kassann. Sótti buddu í vasa á yfirhöfn sinni. Heilmikla buddu með smellu. Opnaði hana virðulega.

Þessu næst tók hún samanvafinn þúsund krónu seðil upp úr buddunni. Sléttaði hann og lagði á upphækkaða plötuna við kassann. Pilturinn tók seðilinn. Næst sléttaði manneskjan fimm hundruð króna seðil og lagði á upphækkuðu plötuna. Þá tók hún að róta til í buddunni og leita að mynt. Fyrst kom hundrað krónu peningur. Nokkru síðar, eftir tilfærslu á innihaldi buddunnar með fingri, komu tveir fimmtíu króna peningar.

„Tuttugu og átta krónur í viðbót,“ sagði pilturinn á kassanum. Kornungur drengur með freknur. Manneskjan leit á piltinn. Opnaði síðan hólf aftan á buddunni sinni. Dró þar upp tvo tíkalla. Eftir nokkra leit einnig fimm krónu pening. „Það vantar þrjár krónur enn,“ sagði pilturinn. Hann var nokkuð feitlaginn. „Búttaður“ mundu mæður segja. Það reyndist vera eitt hólf til viðbótar á buddunni. Þar veiddi manneskjan upp þrjá krónu peninga.

Nú rétti manneskjan úr sér. Lokaði hólfunum á buddunni vandlega og stakk henni í vasa á yfirhöfn sinni. Leit á piltinn og sagði: „Takk fyrir.“ Svo færði hún sig að svarta innkaupapokanum sínum og leit á hann stolt og lyfti honum upp, snéri sér að fólkinu sem beið nú í alllangri röð við kassann. Og nikkaði. Tvisvar eða þrisvar. Ég bærði ekki á mér. Einhver fyrir aftan mig bölvaði.

Spurning mín til þín, lesandi góður, er þessi: Hvort heldur þú að manneskjan hafi verið karl eða kona og á hvaða aldri? Þú mátt svara í athugasemdareitinn hér fyrir neðan.

8 svör við “Manneskja – karl eða kona?”

  1. Sammála síðasta manni. Karlmaður um sjötugt eða eldri..

  2. Krútt sem ekki lætur segja sér til….sennilega hvorugkyns af því kynjahlutverkin valda óþarfa þrýstingi. 🙂

  3. Ég sá fyrir mér eldri konu,
    en þar sem þú spyrð þá efast ég um að það sé rétt..

    b

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.