Mýrin – í örfáum orðum

Það er nú þannig með okkur hjónakornin að bíóferðir eru fremur sjaldgæfar. Kannski ein á tveggja ára fresti. Helgast það fremur af áhugaleysi mínu en frúarinnar. Svo og auðvitað af tilveru Litlatrés sem við stundum af ástríðu. Hvað um það. Nú þegar liðlega sjötti hluti íslensku þjóðarinnar hefur séð Mýrina er ekki óeðlilegt að Ásta beri fram spurninguna: „Á ég þá að fara ein?“

Ásta hefur lesið flestar ef ekki allar bækur Arnaldar. Enda ákaflega duglegur lesari. Bækur hans hafa ekki náð til mín. Enn. Í samtali við ágæta vini mína tvo í vikunni kom myndin Mýrin til tals. Lýstu þeir sviðaáti í myndinni af hrifningu. Mér varð á að segja að aftur á móti hefði ég lesið bækur föður Arnaldar, Indriða G, og haft ánægju af. Þá litu þeir á mig og spurðu: „Hvaða bækur hefur hann skrifað?“

Á forsendunni „ástir samlyndra hjóna“ sáum við Ásta myndina í gær. Í Háskólabíói þótt við búum upp undir Rjúpnahæð. Rötum naumast í önnur kvikmyndahús. Það var fátt í sal. Ástu líkaði vel. Hafði mikla ánægju af að sjá persónurnar sem greinilega eru „góðkunningjar“ hennar, eins og löggan kallar gjarnan síbrotamenn. Svo spurði hún: „En þér, hvað fannst þér?“ Ég dró svarið, alltaf merkilegur með mig, enda tengingarlaus við bókina:

„Það er nú varla skynsamlegt fyrir kújón eins og mig að ætla að dæma um kvikmynd eftir þann fræga mann Baltasar. Mann sem auðvitað málar sínar myndir sínum litum. En í fáum orðum, þá er hlutverk Ingvars mjög gott, vel skrifað og vel leikið, háttvíst, vandað og einlægt. Sviðaátið hefði fallið betur að grófari persónum. Nóg var af þeim. Ótrúverðuglega grófum. Þá var hlutverk Atla Rafns með miklum ágætum einnig. Vel skrifað og vel leikið. Hafði ég mesta ánægju af þessum tveim. Myndataka góð og landslag og bakgrunnur oft heillandi. Fann aldrei fyrir spennu.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.