Allt í einu átta ég mig á því að nafnorðið pistill hefur getið af sér sögnina að „pistla“. Stend ég mig að því að tala um að „pistla“ þegar ég reyni að raða saman fáeinum málsgreinum til að setja á heimasíðuna.
Ekki átta ég mig á því hvaðan orðið kom né hvenær það flutti inn í kollinn á mér, en á óskilgreindan hátt reikna ég með að það stytti leiðina frá hugsun til tjáningar. Það er svo önnur saga hvort notkun þess er fram- eða afturför. Orð eru mörgum yndislegur félagsskapur. Verðmæti sem þeir vilja ekki vera án og unna og elska. Þeir skoða orð, velta þeim fyrir sér, lesa um þau og þegar tveir „orðavinir“ spjalla er oft kátt á hjalla.
Það er samt tímaritið Glíman sem er hátt í huganum þessa daga, meðfram viðfangsefnum smíða og gælingar við jörð. Þriðja hefti tímaritsins kom út fyrir skömmu og eiga aðstandendur þess hið mesta hrós skilið fyrir vönduð vinnubrögð. Þema árgangsins er: Hvað er guðfræði? Til að fjalla um þá spurningu hefur valist hámenntað fólk af báðum kynjum, fólk sem byggir skoðanir sínar fyrst og fremst á yfirgripsmikilli þekkingu á efninu og skoðunum hugsuða aldanna, sem það miðlar til lesenda sinna.
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að kynnast viðhorfum og niðurstöðum höfunda þessara tuttugu greina sem í heftinu eru. Greina sem fjalla um andlegar hliðar tilverunnar, spurningar sem stöðugt leita á huga fólks, svo sem um guðfræði, heimspeki, siðfræði og samskipti trúar og vísinda. Þá er í ritinu fjallað um fjórar bækur um guðfræði sem komið hafa út á síðustu árum. Útlit, umbrot og uppsetning bókarinnar, ég segi bókarinnar þar sem heftið er 312 blaðsíður, eru mjög vönduð og til fyrirmyndar í hvívetna. Lýsi ég yfir þakklæti fyrir frábæra bók.
Að lokum, sagt er frá því í ritinu að rafræna útgáfu þess megi lesa á heimasíðu Kistunnar, [www.kistan.is] en að það komi einnig út á prenti fyrir bókasöfn, skóla og áhugasama kaupendur. En það segir ekki hvar áhugasamir geti keypt sér eintak.
prófarkalesarinn er samt eins og mikilvægasti púkinn í þessu öllu…það er sagt til umhugsunar