Helgi og Hannes – Að kosningum loknum

Það er bekkur á gangstéttinni fyrir framan Ávaxtabúðina.
Þeir hittast þar reglulega félagarnir Helgi og Hannes.
Hannes situr á bekknum en Helgi stendur við hlið hans.
Hann styður sig við reiðhjól. Þeir ræða málin.

Hannes: Ósköp ert þú þungbúinn á svipinn í dag, Helgi?
Helgi: Já. Ég er fúll.
Hannes: Er ástæða fyrir því?
Helgi: Það er verið að tuddast á henni Jórunni móðursystur minni.
Hannes: Tuddast? Er hún ekki háöldruð manneskja?
Helgi: Jú. Hún er háöldruð manneskja og heilsulaus.
Hannes: Mig minnti það. Fótalaus?
Helgi: Já. Líka það.
Hannes: Og hverjir eru að tuddast á svona vesalingi?
Helgi: Framsóknarflokkurinn.
Hannes: Framsóknarflokkurinn?
Helgi: Já. Framsóknarflokkurinn.
Hannes: Hvernig má það vera?

Helgi: Það er bara þannig. Framsóknarflokkurinn hefur setið í heilbrigðisráðuneytinu alltof lengi. Síðast kom Sif.
Hannes: Sif?
Helgi: Já, þessi á mótorhjólinu.
Hannes: Hvað gerði hún?
Helgi: Þetta er þannig að Jórunn hefur farið til hjartasérfræðingsins síns
alveg síðan hún fékk áfallið um árið.
Hannes: Er ekki voða langt síðan það var?
Helgi: Jú. Það eru að verða tuttugu og fimm ár.
Hannes: Ég man að þú sagðir mér frá því. Og hvað?
Helgi: Hún átti tíma hjá honum í vikunni fyrir kosningar. Fer þrisvar á ári í skoðun.
Hannes: Auðvitað.
Helgi: Nú brá svo við að hún varð að borga fullt gjald. Fimm þúsund átta
hundruð áttatíu og þrjár krónur.
Hannes: Ansi var það mikið.

Helgi: Já. Það er mikið. Áður hafði hún borgað fjögur hundruð og fimmtíu krónur.
Hannes: Það munar miklu.
Helgi: Já. Það munar sko miklu. Allir eru sammála um það.
Hannes: Og hvað?
Helgi: Sif breytti þessu á fyrsta degi sínum í ráðuneytinu. Hún sagði öllum hjartasérfræðingum sem starfa utan sjúkrahúsanna upp störfum.
Hannes: Og fellur þá allur kostnaðurinn á sjúklingana?
Helgi: Já. Alfarið. Nema þeir komi með tilvísun.
Hannes: Og hvernig er það gert?
Helgi: Jórunn vissi ekkert af þessu, konuanginn, og mætti hjá hjartalækninum Þar var hún látin borga fullt gjald fyrir heimsóknina og sagt að fara með reikninginn til heilsugæslulæknis síns og fá tilvísun. Fara síðan með reikninginn og tilvísunina inn í Tryggingarstofnun og fá endurgreiddan hluta reikningsins.
Hannes: Er þetta ekki nokkuð flókið fyrir gamla konu?
Helgi: Þú getur nú rétt ímyndað þér. Fyrst fór hún með leigubíl upp í Mjódd þar sem hjartalæknarnir eru. Og fór í skoðun. Eftir það var hún orðin dösuð og ákvað að fara heim og hvíla sig. Einnig með leigubíl og bíða til næsta dags með framhaldið. Svo næsta dag fór hún með leigubíl í Heilsugæsluna og fékk tilvísun. Með leigubíl. Því næst upp í Tryggingarstofnun. Enn með leigubíl. En þar var hún rekin til baka því að tilvísunin varð að vera dagsett fyrir daginn sem hún heimsótti hjartalækninn. Basta.
Hannes: Hverslags meðferð er þetta á svona gamalli konu?
Helgi: Já. Það er það sem ég er að segja. Þetta er andskotans rugl.
Hannes: Það finnst mér líka og get skilið að þú sért fúll.
Helgi: Meira en það. Ég er öskureiður.
Hannes: Og ekkert hægt að gera í málinu?
Helgi: Jú, reyndar. Ég fann ráð.

Hannes: Var það gott ráð?
Helgi: Mér fannst það.
Hannes: Og hvaða ráð fannstu?
Helgi: Ég hringdi í fjölskyldu Jórunnar. Allt gamla fólkið. Átján manns.
Og sagði þeim frá meðferðinni á gömlu konunni.
Hannes: Hvernig brá fólkið við.
Helgi: Það ákvað að mæta ekki á kjörstað. Hver einasta sál.
Hannes: Hver einasta sál?
Helgi: Já. Hver einasta sál. Átján manns. Flokksbundin í Framsóknarflokknum alla ævi eins og allir í þeirra sveit.
Hannes: Það var ágætt ráð.

Það varð þögn dágóða stund. Helgi tók reiðhjólið sitt og bjóst til að ganga af stað. Hannes hélt á poka. Hann gekk að hjólinu til Helga.

Hannes: Teymir þú það ennþá?
Helgi. Já.
Hannes: Má ég setja pokann minn á bögglaberann?
Helgi: Ertu með tilvísun?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.