Hverjum er ekki misboðið

„Munurinn á blaðamennsku og bókmenntum er sá, að blöðin eru ólesandi en bókmenntirnar eru ekki lesnar.“ Oscar Wilde komst þannig að orði. Þessi hnyttna setning kom upp í hugann fyrir skömmu þegar ramakvein blaðamanna glumdi sem hæst yfir þjóðina vegna komu fulltrúa sýslumanns inn á ritstjórn Fréttablaðsins. „Okkur er misboðið,“ sögðu þeir, „okkur er verulega misboðið. Það er verið að skerða rétt okkar.“

Þetta er sama viðhorf og kom fram þegar olíufélögin voru tekin fyrir, en þá voru það olíukóngarnir sem kveinuðu. Þetta er einnig sama kvein og kom fram þegar Baugsveldið var tekið til rannsóknar, en þá voru það starfsmenn þess sem kveinuðu. Og kveina enn. „Okkur er misboðið.“ Ástæðan fyrir þessum áköfu kveinum er sú að menn voru stoppaðir af við iðju sem álitin er óheiðarleg samkvæmt lögum og reglum.

Vafalaust hafa þessir aðilar ekki spurt sig hvort neytendum þeirra hafi einhvern tímann verið misboðið. Eða þá að þeim hefur bara verið skítsama og ákveðið í krafti valds síns og aðstöðu að ganga yfir allar reglur með gróðavonina eina í huga. En auðvitað hefur neytendum verið misboðið. Aftur og aftur og aftur. En hver hlustar á þá? Hver tekur þeirra málstað upp? Það er vandséð.

Einn hópurinn ber sér á brjóst og krefst viðskiptafrelsis, annar hópurinn krefst málfrelsis, tjáningarfrelsis, segja með feitletri og upphrópunarmerkjum að það sé brot á stjórnarskránni að hindra þá við iðju sína. Þeir nefna ekki að það geti verið brot á stjórnarskránni að hafa fé af almenningi með samráði eða að fara svo með málefni einstaklinga í fjölmiðlum að þeir liggi eftir særðir varanlegum sárum.

Og af því að ég vitnaði fyrir skömmu í niðurlag bókar eftir Þorstein heitinn Gylfason, heimspeking og snilling, leyfi ég mér að endurtaka þau orð hér. Þar segir: „Bókin, Tilraun um heiminn, endar á þessum orðum Þorsteins: „Nema ég játi þá trú mína að í ríkjum mannanna skipti réttlæti meira máli en allt annað undir sólinni.“ Og hafandi lesið þau orð situr maður uppi með þá spurningu hvað réttlæti sé og hversu margar skoðanir séu á því og hvort einhver þeirra sé hugsanlega rétt. Er til svar við því?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.