Eftir eldinn

„Ég get staðist allt nema freistingar.“ Í ævisögu Oscars Wildes segir höfundur hennar, Hesketh Pearson; „Ég ætla fyrst og fremst að leggja áherslu á kímni hans og gáska, því að það eru höfuðeinkenni Wildes, að minni hyggju, en ekki píslargangan.“ Þarna staldraði ég við. Orð eins og þessi leysa úr læðingi hugleiðingar um viðhorf fólks til lífsins. Í nútímanum er eins og allt eigi að vera skemmtilegt, hressandi og vekja hlátur. Áreynslulaust, alvörulaust án sársauka og þjáningar. En er lífið þannig í eðli sínu?

Bók Oscars Wildes, Úr djúpunum, ( De profundis), er einskonar játningar höfundarins. Hún er um píslargöngu hans, ferð í gegnum eld, og niðurstöðu að píslargöngunni lokinni. Þar segir meðal annars: „Fyrir annan eins nútímamann og ég er, „enfant de mon siècle“, (barn míns tíma), verður heimurinn auðvitað alltaf yndislegur, þó ekki sé nema að horfa á hann.“ Og síðar: „En samt finn ég nú, að á bak við alla þessa fegurð, þó hún geti fært manni fullnægju, er hulinn einhver andi, og að hin litskreyttu form og myndir eru ekki annað en gervi, sem hann birtist í.“ (Bls. 110)

Einhver hulinn andi. Á öðrum stað segir: „Ég vissi að kirkjan fyrirdæmdi accidia, en hugmyndin öll fannst mér hreinasta fjarstæða, einmitt þess konar synd, að sá prestur einn mundi finna hana upp, sem ekkert vissi um hið raunverulega líf. Ég gat heldur ekki skilið hvers vegna Dante, sem segir að „sorgin tengi okkur aftur við Guð“, gat verið svona harður við þá, sem eru ástfangnir af þunglyndinu, ef þeir menn væru þá til. Mér kom ekki til hugar, að þetta mundi eitt sinn verða einhver sterkasta freisting í lífi mínu.“ (Bls. 42. Tilvitnanir eru úr þýðingu Yngva Jóhannessonar.)

Að verða ástfanginn af þunglyndinu. Af alvöru lífsins. Að sjá í gegnum gervin og verða ástfanginn af hinum hulda anda sem metur einstaka menn þess, eftir að eldurinn hefur brennt burtu hismi og hjóm í huga þeirra, að „slást í för með þeim.“ Slík reynsla vekur varla áhuga margra nútímamanna, þar sem allt virðist eiga að vera áreynslulaust, alvörulaust og án sársauka og þjáningar. Sem manni sýnist á þeim bókmenntum sem mest er látið með nú til dags.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.