Þegar þakskeggið þagnar

Það vakti athygli okkar hvað lítið er um pöddur þetta árið. Ólíkt fyrri sumrum og sérílagi því í fyrra. Varla að maðkur næði sér á strik á alaskavíðinum. Og fiskiflugur og slíkar fullvaxnar hafa eiginlega ekki sést. Hvað þá geitungar. Fiðrildi afar sjaldgæf. Menn tala um kaldan vetur og kalt og þurrt vor sem ástæðu. En hvað sem því líður þá er þetta tvíbent. Mennirnir fagna en fuglarnir harma.

Venjan var sú að þrösturinn hélt stórveislu þegar maðkurinn var í besta forminu á laufinu á alaskavíðinum. Nú vantar hann veisluföngin. Og maríuerlan, þessi himneski litli kátlegi fugl sem gjarnan vill vera utan í mannfólkinu og dansar í loftinu og grípur flugur á lofti, – hann var svo kumpánlegur og gerði sér hreiður undir þakskeggi hjá okkur – og eina vikuna var feiknmikið að gera hjá honum við að afla fæðu fyrir ungana sína og við Ásta spjölluðum við þau hjónin og hlökkuðum til að sjá ungana komast á kreik.

En þeir komu aldrei á kreik. Næstu helgi voru hjónin horfin og þakskeggið þagnað. Við höfum enga skýringu. En sólskríkjan hefur bætt þetta upp. Hún hefur komið ungum sínum upp og nú iðka fjölskyldurnar fugladans og leika listir sínar. Á og um litla kofann okkar. Og ungarnir hafa heyrt að það sé allt í lagi að vera utan í mannfólkinu. Eiga þó verst með að skilja glerið og af hverju ekki er hægt að fljúga í gegnum það.

En þarna eru einnig lóur, þrestir og hrossagaukar sem byggja móana í tugavís og sandlóur á stangli. Og öll eru þau að berjast við að koma afkvæmum sínum á legg. Reyndar gera hrafnarnir sem byggja Sámsstaðagil mikinn usla í mófuglabyggðum, þessir vargar, sem renna sér niður við jörð og hlamma sér niður þegar þeir koma auga á egg eða unga og éta það. Með köldu blóði eins og sagt er. Og þá heyrist örvæntingarhljóð frá foreldrunum.

En það er hrossagauksungi sem haldið hefur stemningunni uppi síðustu daga. Hann er hálf glær og gisinn eins og unglingar gjarnan eru og kemur fast að sólpallinum til okkar og pípir með langa nefinu sínu. Og þá einfaldlega pípum við á móti og þykjumst afskaplega fær í tungumálum þótt við hvorki skiljum það sem gaukurinn er að segja við okkur né það sem við erum að segja við hann. En uppi í loftinu steypa sér þeir fullvöxnu og hneggja með stélinu.

2 svör við “Þegar þakskeggið þagnar”

  1. Hérna úti er meira en nóg af þessu; allir fuglar feitir og pattaralegir og skordýrin svo bústuð að það er ógeðslegt. Og mannfólkið líka, svei mér þá.

  2. Það sama má segja um kríuungana úti við Gróttu. Það er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður þekktist. Mér skilst fuglinn hafi ekki þrótt að ljúka erfiðinu vegna skorts á almennilegu æti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.