Árás á London. Venjulegu fólki í dagsins önn slátrað. Án miskunnar. Þannig var það einnig í New York í september um árið. Venjulegu fólki í dagsins önn slátrað. Þjóðarleiðtogar brugðust við með því að snúa bökum saman. Sýndu samstöðu á móti grimmdinni og reyna að uppræta upptök hennar. Ekki er auðvelt að skorast undan þátttöku í slíkri samstöðu.
Í viðtalsþætti í sjónvarpi var árásin á London til umræðu. Utanríkisráðherra Íslands, Davíð Oddsson, sat fyrir svörum um málið. Í góðu jafnvægi og með skynsamlegum viðhorfum svaraði hann spurningum spyrlanna um líkur á ástæðum og afleiðingum árásarinnar. Þegar leið á þáttinn var eins og annar spyrlanna vildi koma að gagnrýni á þátttöku Íslands í bandalagi hinna „staðföstu þjóða,“ sem svo eru nefndar í samhengi við innrásina í Írak.
Margir hafa hamast á ríkistjórn Íslands fyrir að hafa tekið afstöðu með hinum „staðföstu þjóðum.“ Hæst lét í stjórnarandstöðu á Alþingi. Með ótrúlegu glamri virtist þetta vera það eina sem hún hafði til málefna þjóðarinnar að leggja. Mánuðum saman. Svo og rykið í kringum gjörning forseta Íslands um fjölmiðlamál. Undrandi hlustaði maður á hávaðann og fékk á tilfinninguna að markmiðið væri eingöngu að vera á móti ríkisstjórninni og öllum hennar gerðum.
Mér verður hugsað til þess hver afstaða stjórnarandstöðunnar hefði orðið hefði hún verið við völd. Hefði hún skorast undan samstöðunni? Kjarklaus og tvístígandi? Ég held ekki. En óneitanlega minnir atferli hennar á atvik á síðutogurunum fyrir margt löngu. Ein liðleskjan úr hópi háseta sat gjarnan aftur á keis og bankaði í sífellu með spanna í uglurnar. Svo að þannig liti út að hann væri dugnaðarþjarkur. Í raun stóð hann í skjóli í hlýjunni við strompinn á meðan aðrir hömuðust í aðgerð.