Hugleikin orð

HUGLEIKIN ORÐ
[17/08/04 — 13:19]
Fuglamál. Hver skilur það? Skáldin? Og maður spyr, hver er skáld? Já, og ef lengra er haldið, þá, hver er ekki skáld? Stundum virðist manni að skáldatitill sé settur á menn án þess að þeir séu nokkur skáld. Það er svo margt undarlegt í þessum mannheimi okkar. Svo finnast einnig menn sem eru skáld án þess að nokkur taki eftir því. Hvað skyldi ráða úrslitum um það hver er skáld og hver er ekki skáld?

Hugur minn ríslaði sér við þessa vangaveltu í morgun. Las ljóð Páls Ólafssonar, Hríslan og lækurinn. Hugblærinn strauk strengi tilfinninganna. Eitt skiptið enn. Las þetta fyrst kornungur. „Gott átt þú, hrísla, á grænum bala, / glöðum að hlýða lækjarnið….” En auðvitað kunna allir þetta ljóð. Mig langar samt til að draga fram fyrri hluta mið erindisins:

Svo þegar hnígur sól til fjalla,
sveigir þú niður limarnar
og lætur á kvöldin laufblað falla
í lækinn, honum til ununar.
…..

Honum til ununar. Þetta hljómar eins og ástarorð. Maður nemur eitthvað ósegjanlegt sem liggur á milli orðanna. Eða á bak við þau. Eitthvað sem snertir huga manns. Hjarta manns, eða hólfið innst inni í manni. Andann. Eða hvað eigum við að kalla það?
Hvernig skyldi Díótíma hafa orðað það? Já, eða Freud?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.