Á einum af þessum dýrmætu dögum sumarblíðunnar, um litla skatts leyti, kvað allt í einu við hvinur í lofti og einskonar hvæs. Við vorum niðursokkin í annir, smíðar og blómaaðhlynningu. Tveir mófuglar flugu með feikna hraða að gluggum hússins og börðu vængjum ólmir til að reyna að komast í gegn. Í kjölfarið kom smyrill, grimmur og gráðugur, með klærnar steyttar til að hremma þá smáu.
Mér varð á að steyta hamarinn á móti smyrlinum og hvæsa og öskra á hann. Hann flaug, eldsnöggur, upp í tíu metra hæð, stansaði í loftinu, snéri sér og gerði sig líklegan til að steypa sér aftur. Ég lét öllum illum látum, veifaði báðum höndum, hrópaði og gerði mig líklegan til að fljúga á móti honum. Þá lét hann af, hækkaði flugið og lýsti vanþóknun sinni með þessum sérkennilegu hljóðum sem hann einn fugla gefur frá sér. Og hvarf upp í Sámsstaðagil.
Mófuglarnir tveir sem flúið höfðu á náðir nálægðar við mannheima, stóðu á grilllokinu litla alin frá okkur. Sjá mátti æðisgenginn hjartslátt þeirra í brjóstunum. Við horfðumst í augu nokkra stund. Sagði einhver huggunarorð í barnagælutóni. Upplifði vott af gleði yfir því að þeir höfðu flúið að mannabústað. Svo flugu þeir. Og dagurinn hélt áfram að vera dýrmætur. Í vináttu og sól.