Lokaprófið

Hún heitir Þuríður Guðmundsdóttir. Er frá Sámsstöðum í Hvítársíðu. Hún yrkir ljóð. Í ljóðum hennar er tónn. Í tóninum dulúð. Dulúð. Langt að komin. Maður þagnar við. Hlustar. Skynjar. Grunar. Finnur fyrir honum. Kannast við hann. Tekur ofan. Lýtur. Minnist.

Þuríður yrkir:

Ævintýri sem endar vel

Það var einu sinni sorg
sem sveif á dálitlu skýi

og skýið talaði við sorgina
og sorgin við skýið

brátt fór að rigna
það rigndi og rigndi
lengi lengi
uns skýið leystist upp

Þá læddist að sorginni
svolítill geisli

og geislinn talaði við sorgina
og sorgin við geislann

en Guð bað sólina að skína

hún skein og skein
svo skært og lengi
og sorgin leystist upp

Nóttin sem hlustar á mig

Nóttin
hlustar á mig

dagurinn
er of önnum kafinn

ég hjúfra mig
að henni
eins og stóru dökku tré

segi henni allt
og hengi drauma mína
á greinarnar

Eftir lokaprófið

Eftir lokaprófið
fer ég í kirkjuna
til að kveðja nokkra elskulega vini
sem ætla
í takt við tónlistina
að blessa yfir og bera burt
krumpinn einnota líkama minn

á meðan ég
klædd uppáhaldskjólnum mínum
á stefnumót
við löngu farna ástvini
í ljósinu að handan

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.