Þannig segir í ljóðinu sem við sungum í söngtímum hjá Jóni Ísleifssyni í Melaskólanum fyrir liðlega fimmtíu árum. Það rifjaðist upp á sumardaginn fyrsta. Í veðurblíðunni sem alla undraði. Við náttúrubörnin höfum eytt nokkrum dögum með nefið ofan í jörðinni á litla landskikanum okkar uppi í Borgarfirði og hlakkað til sumarsins. Fuglarnir fylltu móana og sungu hundrað raddað fyrir okkur í kaffihléunum. Dýrðarinnar tónverk og dirrindí.
Annars erum við í nokkru basli með nafnið á skikanum. Sögðum frá því í pistli á síðasta ári að þar væri ein hrísla, gömul, lúin og hokin. Við tókum hana tali þá. Gáfum henni áburð, bæði lífrænan og verksmiðjuframleiddan. Gróðursettum svo sjö litlar birkiplöntur umhverfis hana. Upp á félagsskapinn. Og hvítagreni. Svo vildum við kalla skikann Litla tré. Eftir indíánastrák í bók sem Ástu þótti svo gaman að lesa en bókin heitir uppvöxtur Litla trés.
Með tilliti til tungumálsins og álits fróðra íslenskumanna eru líkur á að nafnið verði Litlatré. Ég hefði viljað hafa orðin tvö og segja Litla tré. Held mig við það til að byrja með. Þótt hríslan hafi verið tiltölulega lífleg í fyrra átti hún dapurlegan vetur. Einn daginn í vor hafði kyngt niður snjó. Engu máti muna að hún brotnaði undan þunganum. En hún rétti úr sér sem sýnir að hún er ekki orðin stökk og brothætt eins og ellin.
Líklegt er að hjörtu okkar verði meira og minna hjá Litla tré í sumar. Og kannski freistumst við til að koma okkur upp afdrepi til að sötra kaffi í. Sendum vinum okkar bestu óskir um gleðilegt sumar með erindi úr Söngbók Samhjálpar:
Nú er veturinn liðinn og ljósið,
aftur lifandi tekið að skína.
Hún er lifandi liljan og rósin,
og lífið er undursamlegt.