Rítalín

Lyfið Rítalín hefur verið í umræðunni undanfarið. Stjórnvöldum blöskrar hve margir peningar fara í lyfið. En þeim blöskrar nú svo margt. Nema eigin neysla og eyðsla. Rítalín er lyf sem ofvirkum er gefið. Bæði börnum og fullorðnum. Og léttgeggjuðum. Lærði þetta orð fyrir tuttugu árum síðan. Það var notað til að lýsa einum kennaranna á flugnámskeiði sem ég sótti.

Léttgeggjaður kunningi minn var óvenju hátt uppi í gærmorgun. Það kjaftaði á honum hver tuska, eins og sagt er. Þó er þetta maður sem talar ekki meira en hann þarf. Að jafnaði. Við rannsókn á því hvað olli gleði mannsins kom í ljós að hann hafði leyst út mánaðarforða sinn af Rítalíni, daginn áður. Átti það inni í skáp. Var nú hress, glaður í bragði og varð að tjá sig. Hann sagði frá eftirfarandi atviki, flaumósa:

„Það var einu sinni. Ha. Ég átti heima á Grettisgötunni þá, ha, maður, ha. Ég var fyrstur í húsinu til að fá síma, maður. Ha. Og hvað helduru? Ha? Konan í næstu íbúð bankaði hjá mér einn morguninn. Ha. Klikkuð kelling, maður. Ha. Og spurði með vælutóni, maður, (hann hermdi eftir konunni) ha, hvort hún mætti hringja. Ha. Ég horfði nú bara á hana en sagði svo, alt í lagi. Ha. Og hún kom inn og hringdi. Hringdi í lögguna, maður, ha, og hvað helduru, maður, ha? Hún kærði mig fyrir að hafa stillt útvarpið allt of hátt um nóttina.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.