Um gáfað fólk og annað

Mjög ungur tók ég að dást að gáfuðu fólki. Þegar ég heyrði fullorðið fólk ræða um gáfaða menn þá nam ég aðdáunartóninn í tali þeirra og hugsaði með lotningu til gáfumannanna. Svo í barnaskólanum þegar ég var færður upp um bekk til eldri krakka, töluðu kennararnir um að mér gengi svo vel.

Aðalkennarinn minn naut aðdáunar hjá fullorðna fólkinu fyrir vitsmuni og hæfni og þá hlaut þetta að vera góð ráðstöfun og ég aldrei spurður. Hafði heldur enga skoðun á þessu. Á þeim árum tók ég öllu sem að höndum bar eins og það kæmi mér lítið sem ekkert við. Byrjaði samt að efast um fullyrðingar um gáfaða menn.

Enn þessi ráðstöfun að færa mig upp um bekk reyndist ekki vel. Þegar Melaskólinn hóf starfsemi voru útúrdúrar lagðir niður og ég settur í tíu ára bekk. Aftur. Hafði verið í honum veturinn áður. Missti nú áhugann á náminu og tók að skrópa og svíkjast um og selja Moggan niður í bæ í staðinn fyrir að mæta í skólann.

Ég dáist samt að gáfuðu fólki enn. Þó er það flókin spurning hvað séu gáfur og hvað ekki. Líklega var það Sigurður Nordal sem sagði að sú væri viðtekin skoðun Íslendinga að til þess að teljast gáfaðir þyrftu menn að vera fámálir, alvörugefnir og mættu alls ekki hlægja þegar aðrir sæju til.

En nú til dags fækkar mjög í þeim hópi manna sem höfðu af venjulegu fólki verið flokkaðir sem gáfaðir. Meira að segja þeir, sem setið hafa í háskólum margra landa áratugum saman og safnað doktorstitlum og öðrum glæsilegum áfangaviðurkenningum og koma fram fyrir þjóðina í fjölmiðlum alvörugefnir og ábúðarmiklir, bregðast á þessum erfiðu tímum.

En orð Prédikarans, sem taldi flesta hluti aumasta hégóma, hvísla inn í sál þeirra sem lúta svo lágt að hlusta á hann: „Speki er eins góð og óðal …(og) …heldur lífinu í þeim sem hana á.“

Eitt andsvar við „Um gáfað fólk og annað“

  1. Mikið væri gagnlegt núna að fá að njóta pennans hans Halldórs Laxness, það var gáfaður maður! Hann gæti án efa sagt okkur ýmislegt um okkur sjálf á þessum skrýtnu tímum, hann meira að segja sagði okkur ýmislegt um okkur sjálf fyrir 70-80 árum sem gildir fullkomlega enn þann dag í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.