ER SVÍNAKJÖT Í ÞESSU?

Við fórum í lítilsháttar bíltúr í morgun, hjónin. Áttum eitt erindi. Sinntum þrem. Frú Ásta ók eins og oftast síðari árin. Mér gafst því góður tími til að skima og skoða. Þögul ókum við Sæbraut, fram hjá Hörpu og því næst í gegnum ljótasta hluta borgarinnar, ég endurtek, ljótasta hluta borgarinna og varð að orði. „Fullþroskaður ljótleiki. Verr verður ekki gert.“ En nú
snýst heili ráðamanna um bragga í Skerjafirði.

Úti á Ægisgarði sáum við, okkur til huggunar, þetta afar fallega norska seglskip / skólaskip sem ber nafnið Statsraad Lehmkuhl. Því miður hafði ég ekki myndavélina með og gat ekki verið þekktur fyrir að mynda svona fallegt skip með síma. Svo ég reyni frekar að næla í mynd af netinu.

Á bakaleið ókum við aftur í gegnum ljótleikann. Nú bað ég Ástu að koma við í Sundahöfn svo ég gæti barið augum hin geysimiklu herskip Bandaríkjamanna. Hef alltaf verið hrifinn af þessum miklu stríðs eða varnartólum. Reiknaði með að við gætum ekið fram hjá þeim en það var ekki hægt. Hundruð manna stóðu í langri biðröð eftir að komast um borð til að skoða skipið. Það kom á óvart. Spurningu skaut upp í huganum: Skyldi nokkur VG meðlimur leynast í biðröðinni?

Loks bætti ég einu erindi við ferðina til Reykjavíkur. Pylsumeistaranum við Hrísateig. Þrennt var á undan mér við búðarborðið. Þegar sá sem verið var að afgreiða hafði lokið viðskiptum kom að ungum hjónum með barn í kerru. Þetta voru fríð hjón klædd hversdagslegum fötum. Konan með höfuðklút bundinn um hárið. Konan talaði við afgreiðslumanninn á ensku. Ég lét mér samtal þeirra engu skipta þangað til tíminn sem þau eyddu í þetta var orðinn leiðinlega langur. Þá lagði ég við hlustir. Konan benti á hinar ýmsu kræsingar í afgreiðsluborðinu og spurði lágum rómi hvort það væri svínakjöt í þessu, en þessu eða þessu. Loks ræddi hún hljóðlega við manninn sinn sem kinkaði kolli og konan keypti loks lítinn bita af tveim tegundum.

Ekki áttaði ég mig á hvort þetta voru Gyðingar eða múslimar. En mikil ósköp var barnið þeirra í kerrunni frítt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.