Dante og drossíujeppinn

Fór í morgun í nokkrar verslanir til að skoða verð á fáeinum bókum. Á bílastæði við eina búðina bar svo við, þegar ég var að læsa bílnum mínum, sem er ellefu ára gamall Forester, að á hvínandi ferð kom þessi svakalega flotti drossíujeppi, silfurgrár og sanseraður og snarhemlaði svo nálægt mér að ég var rétt rokinn um koll.

Inni í hausnum á mér losnuðu nokkur illskeytt orð sem ég sleppti þó ekki út. Út úr drossíujeppanum snaraði sér kona, á að giska milli fertugs og fimmtugs, fremur hávaxin og klædd vönduðum fötum. Hún skundaði vasklega inn í bókabúðina. Ég rölti þangað á hraða þess eldri borgara sem treinir sér þau viðfangsefni sem falla til í tilbreytingalitlu lífsmunstri.

Í búðinni voru uppsett mörg langborð og á þeim voru staflar af bókum. Mögulegum og ómögulegum. Mikið af hraðsuðubókum og allskyns millivigtarbókum sem hafa verið áberandi í auglýsingaflóðinu og hrópuðu ótæpilega á kaupendur. En einnig ein og ein sígild. Smávegis sæluhrollur fór um mig og ég naut þess að skoða, leggja lófann á sumar, taka eina og eina upp og velta henni fyrir.

Svo kom ég að Dante Alighieri, Geðileikurinn guðdómlegi. Teygði mig eftir henni og fór um hana höndum með lotningu og talaði við hana í hálfum hljóðum. Hafði orðin yfir. Inferno – Purgatorio – Paradiso. La Divina Commedia. Ég gleymdi mér og einskonar bros myndaðist á andlitinu á mér. Eftir nokkra stund leit ég upp.

Andspænis mér við langborðið stóð konan úr drossíujeppanum og horfði á mig. Augu okkar mættust. Hún hallaði sér í átt til mín og spurði: „Dante, um hvað er hún?“ Þá nikkaði ég til hennar, blikkaði öðru auganu og sagði: „Ef þú bara vissir.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.