Alpahúfa með typpi

Það var í morgun, fyrir hádegi, ég átti erindi fyrir Ástu mína í verslun EJS á Grensásvegi. Það var kalt og ég klæddi mig vel. Setti trefil tvívafinn um hálsinn og alpahúfuna mína góðu á hausinn. Hún hefur dugað mér í ótal ár. Það var hvasst og strengur suður Grensásveginn sem reif í hurðina á bílnum þegar ég opnaði.

Að loknum viðskiptum fór ég glaður í bragði út úr búðinni og stefndi upp sundið á lagerafgreiðsluna. Þá kom vindhviðan og skipti engum togum að alpahúfan snaraðist upp í loft, fjóra til fimm metra, þeyttist niður sundið og skellti sér niður á akreinina og rúllaði eins og hjól út á götuna.

Eftir smá hik þaut ég á eftir henni og ætlaði að grípa hana, en þá kom bílahersing í einskonar kappakstri eins og oft gerist þegar kemur grænt ljós. Þeir flautuðu allir og ég mátti þakka fyrir að sleppa til baka óyfirkeyrður. Þetta voru milli tuttugu og þrjátíu bílar á tveim akreinum og flestir þeirra keyrðu yfir húfuna mína. Þessa elsku sem hefur dugað mér í ótal ár.

Þessu næst fauk hún yfir eyjuna sem skilur akreinarnar að. Og glás af bílum á norðurleið óku yfir hana og hún hvarf. Þá hugsaði ég með mér að nú hlyti hún að vera dáin, týnd og töpuð og ég draup höfði. Þessu næst lauk ég erindi mínu á lagernum uppi í sundinu. Þegar ég kom að bílnum aftur, skimaði ég lengi yfir götuna þar sem bílar geystust í báðar áttir en sá húfuna hvergi.

Það verður að hafa það, hugsaði ég og ók þessu næst af stæðinu og út á Grensásveginn. Skipti yfir á vinstri akrein og hugðist aka til baka með húsalengjunni að austanverðu við götuna. Kom svo að ljósunum við Fellsmúla, stansaði og beið eftir grænu ljósi. Kom hún þá ekki þessi elska skoppandi og stöðvaðist á rauðu ljósinu, eins og ég.

Skælbrosandi og með hrærðu hjarta fór ég út úr bílnum og tók þessa elsku varlega upp og skoðaði hana í krók og kring. Hún virtist ekkert slösuð og meira að segja typpið á henni stóð eins og hetja. Þessi elska sem hefur dugað mér í ótal ár.

Eitt andsvar við „Alpahúfa með typpi“

  1. Yndisleg lesning Óli..Þú kannt að koma orðum að hlutunum..Set þetta á Fésið mitt!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.