Ljósahátíðin Chanukah hefst í dag. Á sama tíma og kristnir menn halda sína aðventu til að undirbúa jólin og minnast fæðingu frelsarans Jesú Krists, halda Gyðingar ljósahátíð sem þeir kalla chanukah, eða hanúka, upp á íslensku.
Hanúka er átta daga hátíð sem hefst 25. dag kislev mánaðar eftir gyðinglegu tímatali, en kislev mánuður skarar nóvember og desember í okkar tímatali. Í ár hefst hanúka-hátíðin í dag 1. desember. Hjá Gyðingum er nú árið 5771
Saga hanúka hófst þegar Alexander mikli af Grikklandi, (332 fyrir Krist) réði ríkjum. Hann var keisari Sýrlands, Egyptalands og Palestínu. Á valdatíma sínum lét hann þjóðunum eftir nokkurt sjálfsforræði, leyfði þeim meðal annars að iðka trú sína og menningu óáreittum. Ekki fór þó hjá því að áhrif frá Grikkjum dreifðust út á meðal þjóðanna og hefði áhrif á tungu þeirra og siði.
Liðlega öld síðar, þegar arftaki Alexanders mikla, Antiochus IV, réði ríkjunum, tók hann að sýna Gyðingunum yfirgang og ofsækja þá. Hann setti t.d. hellenista-presta yfir samkomuhús þeirra, bannaði þeim að iðka trúarbrögð sín og svívirti musterið með því að láta fórna svínum á altörum þess. Sem viðbrögð við kúguninni tóku tvær hreyfingar þjóðernissinnaðra Gyðinga sig saman með herji sína og gerðu byltingu og náðu aftur yfirráðum yfir Jerúsalem. Í framhaldi af því vígðu þeir og helguðu musterið að nýju.
Söguhefð Gyðinga segir að á tímum endurvígslu musterisins hafi lítil sem engin kosher (helguð) olía verið til í landinu því að Grikkirnir höfðu saurgað og spillt allri olíu sem þeir náðu til. Olía gegndi þýðingarmiklu hlutverki í musterinu þar sem loga skyldi á lömpum þess næturlangt allar nætur árið um kring.
Gerð var mikil leit og fannst aðeins ein olíukrukka með innsigli æðsta prestsins. Var það magn svo lítið að aðeins mundi nægja til lýsingar í eina nótt. En þá gerðist kraftaverkið. Olían dugði í átta daga og þótti það mikil undur. Ári síðar var ákveðið að stofna þessa átta daga hátíð til að minnast kraftaverks ljóssins sem logaði í átta nætur. Er hún haldin enn þann dag í dag.
Hanúka er ekki mjög þýðingarmikil trúarhátíð. Er það helst tendrun ljósanna sem fellur undir helgisiði. Er kertum komið fyrir í ljósastiku sem ber átta kerti, eitt fyrir hverja nótt, plús shammus, þjóninn, sem er á miðjum stjakanum og stendur ofurlítið hærra en hin. Fyrsta kvöldið er eitt kerti sett í kertasætið lengst til hægri. Þá er kveikt á shammus, þjóninum, og farið með þrjú blessunarorð.
Eftir blessunarorðin er kveikt á fyrsta kertinu, er það gert með shammus sem aftur er sett á sinn stað. Ljósinu er leyft að brenna út en gæta þarf þess að það logi minnst í eina og hálfa klukkustund, eða á meðan heimilisfólkið er að koma heim af markaði eða úr vinnu og geti séð ljósið. Síðan er nýju kerti bætt við á hverju kvöldi, frá hægri til vinstri, eins og Hebreska letrið er skrifað, og farið með tilheyrandi blessunarorð. Á áttunda kvöldinu er kveikt á öllum átta kertunum svo og shammus, þjóninum.
Shammus, eða þjóninn, er hafður með til þess að ekki þurfi að taka hanúkakerti, eitt af þeim átta, ef einhver þörf kemur upp fyrir ljós eða eld. Er shammus, þjónninn, því látinn standa dálítið hærra svo auðvelt sé að þekkja hann úr og grípa til hans.“
Fyrir nokkrum árum tók ég upp þann sið að kveikja á olíulampa í forstofunni á aðventunni, síðdegis, og láta ljósið loga fram yfir heimkomu Ástu úr vinnu á kvöldin. Er lampinn staðsettur andspænis dyrunum að íbúðinni okkar. Með þessu vil ég sýna hug minn og bjóða Ástu velkomna heim úr vinnunni inn í hlýju aðventunnar og samfélags okkar.