Þyrnirós í dulitlu dragi

Þetta var síðastliðinn föstudag. Við höfðum áætlað að gróðursetja 21 birkihríslu við afdrepið okkar uppi í Borgarfirði. Áttum þær fráteknar hjá Árna á Þorgautsstöðum. Höfðum gert holur tveim vikum fyrr.

Það var strax við fyrstu holuna sem gleðihrollurinn byrjaði í brjóstinu á mér. Veðrið var sérlega fallegt, logn, hiti 12-14 gráður og sólblettir hér og þar. ,,Hún Þyrnirós er besta barn, besta barn, besta barn…“ söng ég. Ekki veit ég af hverju. Ásta var að koma hríslunni fyrir með sínum allt græðandi höndum.

,,Besta barn, besta barn.“ Nú var ég farinn að syngja upphátt. ,,Hún Þyrnirós er besta barn, besta barn…“ Svo bar ég mig að eins og óperusöngvari, fyllti brjóstkassann af lofti og mundaði hendurnar eins og í Hamraborginni. ,,Besta barn, besta barn.“ Út yfir móann.

,,Hvað er um að vera?“ spurði Ásta, ,,er ekki allt í lagi?“ ,,Hún Þyrnirós er besta barn, besta barn….“ ,,Jú, það er sko allt í lagi, himnalagi, ..besta barn, besta barn…hún Þyrnirós er besta barn, besta barn.“ ,,Þetta er hamingjan,“ sagði ég. ,,hamingjan sjálf, ég hef ekki stjórn á henni,- besta barn, besta barn.“

,,En af hverju þetta lag, hvað kemur það hamingjunni við?“ spurði Ásta. ,,Hún Þyrnirós er besta barn, besta barn, besta barn….“ söng ég enn. ,,Mig vantar hríslu,“ sagði Ásta. ,,Elsku, elsku Ásta mín, Ásta mín, besta barn,“ söng ég með sama laginu og rétti henni hríslu líkt og maður gefur rós.

Þegar allar hríslurnar höfðu fengið sína umönnun settumst við á barðið og hjöluðum um veðrið og lífið og komandi helgi, en von var á börnum og tengdabörnum í svokallað vísnakvöld. Og við rifjuðum upp. Og allt öðru vísi lagstúfur braust fram: ,,gerðist í dulitlu dragi, dulítið sem engin veit…“

Eitt andsvar við „Þyrnirós í dulitlu dragi“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.