Minning – Guðmundur í Hlöðutúni

Guðmundur Garðar Brynjólfsson
f. 21.október 1919 – d. 11. September 2010

Kynslóðir koma og fara. Kærir einstaklingar kveðja. Heimsmyndin breytist. Söknuður býr um sig þótt brottferðin sé ófrávíkjanleg. Svo taka góðu minningarnar við. Og þakklæti.

Fyrir sextíu árum, drengur í sveit á Svarfhóli í Stafholtstungum, heyrði ég ávallt talað um Hlöðutúnsfólkið af mikilli virðingu. Tók til þess. Fimm árum síðar kynntist ég fólkinu. Einkenni þess var hlýja og mannvinátta.

Konan mín, Ásta, er dóttir Jóns Ásgeirs, eins af systkinunum frá Hlöðutúni. Hún á margar minningar frá því hún kornung var hjá Brynjólfi afa og ömmu Jónínu sem og systkinunum Guðmundi og Ingibjörgu, en þau bjuggu með foreldrum sínum um langt árabil. Allar frásögur Ástu frá þeim árum einkennast af hlýjunni sem hún naut þar og virðingu heimafólks fyrir lífinu.

Síðustu árin hagaði svo til að okkur gáfust fleiri tækifæri til að koma við í Hlöðutúni og spjalla við Guðmund. Það var gott að sitja hjá honum í gamla bænum og ræða málin. Við þekktum sama fólk og bæi í héraðinu og gátum spurt og svarað um menn og málefni. Eins og gefur að skilja var honum sveitin kær. Norðurá, sem bærinn stendur við, grænir bakkar hennar og Baula í norðri voru ramminn í kringum lífsgönguna. Guðmundur hafði mætt áttatíu sinnum í Þverárrétt í Þverárhlíð. Fyrst þegar hann var átta ára. Þá hafði hann verið fjallkóngur Stafholtstungna hátt í tuttugu ár.

Þegar Þorgerður Jóna Árnadóttir frá Hólmavík, kom vinnukona að Hlöðutúni varð mikil breyting í lífi Guðmundar. Þau felldu hugi saman og giftust og tóku við búinu. Hressandi skapgerð, lífsgleði og hreinskilni Þorgerðar einkenndu samlíf þeirra og andann í Hlöðutúni. Saman eignuðust þau börnin Brynjólf, sem býr í Hlöðutúni og Þuríði, sem býr á Sámsstöðum í Hvítársíðu. Fyrir átti Þorgerður soninn Ásgeir sem Guðmundur gekk í föðurstað. Þorgerður lést 21. júní 1990, aðeins fimmtíu og fimm ára. Var mikill harmur að fjölskyldunni kveðinn við fráfall hennar.

Systkinin í Hlöðutúni voru sjö. Anna, Margrét, Jón Ásgeir, Ragnheiður Soffía, Guðbrandur Gissur, Ingibjörg og Guðmundur Garðar. Lifir Ingibjörg ein systkini sín. Í háum aldri, fædd 1916, býr hún á Skjóli við góða heilsu og þetta einstaka skap sem einkenndi Hlöðutúnsfólkið. Jákvæð, æðrulaus og glaðvær.

Við kveðjum Guðmund Garðar með þessum fátæklegu orðum og þakklæti fyrir vinsemd og frændsemi um langt árabil. Brynjólfi, Þuríði og fjölskyldum þeirra sem og öðrum aðstandendum, auðsýnum við einlæga samúð okkar við fráfall föður, afa og bróður.

Óli og Ásta

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.