Ætla má að þessir þrír Færeysku stjórnmálamenn sem nú láta að sér kveða og kasta steinum að forsætisráðherra Íslands , telji sig miklar guðshetjur. Þeir veifa Biblíunni og segjast sækja til hennar rök og fyrirmæli um orð og aðgerðir.
Það er mismunandi hvernig menn lesa Biblíuna. Oft virðist sem þeir háværustu um orð hennar séu tæpast læsir á hana. Það vekur að minnsta kosti oft undrun, hvaða orð hennar höfða helst til þeirra og hræra þeirra „helguðu“ sálir.
Ekki er ósanngjarnt að segja sem svo að menn sem telja sig kristna skuli leitast við að horfa fyrst og fremst til orða Krists. Hann var jú kominn til að uppfylla eldri ritningar og hafa frásögur af orðum hans og gjörðum yljað, huggað og grætt, milljónir manna, kvenna, karla og barna, allar götur síðan hann var krossfestur.
Ég geng út frá því að Færeyingarnir þrír gefi sér að forsætisráðherra Íslands sé syndug manneskja og því ekki við hæfi að þeir, „andlegir fyrirliðar“, skuli samneyta slíkum.
Þetta viðhorf sækja Færeyingarnir ekki til Krists. Hann hafði önnur viðhorf. Þeir sækja það til faríseanna, manna sem börðu sér á brjóst og töldu sig betri en aðra menn.
Jesús sótti veislur og sat til borðs með fólki af öllum stigum. En farísear og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans. Og þeir sögðu: „Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra.“
„En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll hennar börn.“
Það tekur því ekki að reyna að lækna gamalt og forhert,
þessvegna kenndi hann unga fólkinu hvernig því farnaðist best, gaf því til dæmis boðorðin 10
kenndi því líka um vegina, þann breiða, og þann mjóa.
Margir Íslendingar gætu margt af því lært.
Sætu þá ekki uppi með afleiðingarnar af oftrúnaði á foringjaskrípi, sem fyrir löngu mátti sjá að stefndi öllum og öllu í brotlendingu ásamt hirð sinni.