Fötin efla manninn

Það var í Bókasafni Kópavogs um hádegisbil. Ég skilaði bók. Gekk um safnið á eftir og skoðaði í hillur. Kom að mínum ágæta vini Steinbeck, sem ég las af áfergju á árum áður. Þær standa hátt í huga mínum Litli Rauður og Austan Eden. Stóðst ekki mátið og strauk yfir kilina. Bækur sem vekja góðar minningar.

Við síðustu bók Steinbeck´s tók annar höfundur við. Sá er íslenskur. Steinar Sigurjónsson. Staðsetnig bóka hans helgast auðvitað af stafrófinu. En það fór vel í mig. Ég kynntist Steinari lítilsháttar. Á nokkrar bækur eftir hann. Við áttum nokkur samtöl um árið og það fór vel á með okkur. Mér fannst hann passlega galinn.

Það er gott fyrir passlega galna menn að ræða málin við aðra passlega galna menn. Svo tók ég bókina Sigling með mér. Byrjaði á henni á biðstofunni hjá bæklunarlækninum sem ég ræði fótaverkina við. Læknirinn fór mjúkum og hlýjum höndum um ökklann á mér og sagði einhver ósköp af hinu og jafnmikið af þessu.

Svo endaði hann samtalið með orðunum: „Sjáumst eftir ár.“ Mér fannst mér strax líða betur. Á bílastæðinu við Orkuhúsið las ég nokkrar síður í Siglingu. Kynntist þar William nokkrum Steck sem gaf Steinari 50 dollara. Skömmu síðar klæddi hann Steinar upp í klæðaverslun Andrésar, og „ég efldist allur við þetta.“ Sagði Steinar.

Þetta er svona ágætur dagur með ívafi. Sólin og veðrið og margir léttklæddir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.