Vonbrigði með Mogga og pólitík

Vissulega er ekki komin reynsla á Sunnudagsmoggann. En hann fer skringilega af stað. Það var alltaf þannig að þegar við hjónakornin höfðum verið um helgi úti á landi þá hlakkaði ég ævinlega til þess að koma höndum á laugardagsmoggann og Lesbókina.

Sunnudagsblaðið var hætt að vekja áhuga minn. Taldi ég mér trú um að þeir sem breyttu því og hönnuðu hefðu ákveðið að höfða til hóps lesenda sem ég tilheyrði ekki. Lét ég það svo sem gott heita.

Nýi Sunnudagsmogginn er álíka. Og Lesbók, á hvaða leið er hún? Í gær fann ég fyrir leiða þegar ég hafði flett blaðinu við heimkomu eftir helgarveru í Borgarfirði. Þá er líka kominn inn í blaðið, alla daga vikunnar, tónn sem á ekki við mig. Minnir dálítið á Þjóðviljaskrif fyrir fimmtíu árum.

En það er fleira sem veldur vonbrigðum þessar vikurnar. Ekki fæ ég betur séð en að ríkisstjórnin sé að bregðast vonum manna sem kusu hana. Grunurinn um að fjármagnseigendur ráði lofum og lögum um alla ákvarðanatöku eykst með degi hverjum. Þeir standi sterkari eftir hrun en fyrir, lausir við þungar skuldabyrðar sem dreift verður síðan á almenning.

Styrmir Gunnarsson skrifar grein í Sunnudagsmoggann um miðjupólitík. Það var jú skoðun okkar margra að á fyrri árum hafi Sjálfstæðisflokkurinn einmitt staðsett sig þar og tekið upp í stefnuskrá sína ýmis mál sem vinstri flokkar þóttust eiga. Það er samt athyglisvert að Styrmir verður að fara alla leið aftur til Geirs Hallgrímssonar, borgarstjóra, til að benda á róttækar breytingar í félagslegum umbótum.

Í útvarpsþætti Ævars Kjartanssonar og Páls Skúlasonar heimspekings, Heimi hugmyndanna, mátti heyra þá skoðun viðmælenda þeirra, Sigríðar Matthíasdóttur og Gunnars Karlssonar, þegar rætt var um ESB, að þeim virtist sem innganga í bandalagið styrkti þjóðir en veikti ríkisstjórnir.

Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að einmitt það gæti verið hið besta mál fyrir almenning. Þá myndu hagsmunahópar sem ginið hafa yfir auðlindum og arðsemi þjóðarbúsins ekki lengur einokað hagnaðinn fyrir fáa.

Veiking ríkisstjórnar er kannski það sem hörðustu andstæðingar inngöngunnar í bandalagið óttast mest og vilji því fyrir alla muni verja hana fram í rauðan dauðann þar sem þá dreymi um að vegna getuleysis vinstri stjórnarinnar muni þeir fljótlega endurheimta völdin. Ríkið og völdin. Og þar með hafið hrunadansinn að nýju.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.