Maður með þrjá innkaupapoka

Allt í einu varð eins og veröldin brjálaðist. Ég var í sakleysi mínu að setja þrjá innkaupapoka í aftursætið á mínum bíl þegar tveir hundar í bíl við hliðina á mínum urðu gjörsamlega trítilvitlausir. Þeir geltu og urruðu og hentust fram og aftur í bílnum og ég gat ekki betur séð en það væri ég sem fór svona í taugarnar á þeim.

-Hverslags uppeldi hafið þið fengið, kvikindin ykkar, sagði ég í gegnum afturrúðuna hjá þeim og sýndi þeim tennurnar því það álíta hundar að sé árásartákn. Og ekki stóð á viðbrögðunum. Þvílíkt og annað eins og froða farin að myndast í kjöftunum á þeim. Þá ákvað ég að hlægja framan í þá en það skilja þeir einnig sem tákn um árás.

Bíllinn sem þeir voru í er svakalega flottur, jeppi með öllu utan á sem hægt er að festa þar. Og númerið með konu nafni. Nema það sé nafn á tík. Hundarnir linntu ekki látum en ég lauk við að koma innkaupapokunum fyrir í mínum bíl. Svo ákvað ég að tala alvarlega til þeirra að skilnaði. Klessti andlitið alveg að rúðunni í afturhurðinni og hrópaði fullum hálsi:

-Þið komið óorði á pabba ykkar. Það er sagt að hundar hagi sér eins og eigendur þeirra. Þið ættuð að senda pabba ykkar í sálgreiningu. Það kom mér á óvart að þeir þögnuðu báðir skyndilega og settust móðir með lafandi tungur. Ég leit í kringum mig. Stór og mikill mannlurkur í flottum fötum, skundaði í áttina til okkar. Ég sá ekki betur en að hann væri farinn að gelta svo að ég flýtti mér inn í minn bíl og ók í burtu. Þvílík læti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.