Það var um sjöleytið í gærmorgun. Ég fór í örstutta gönguferð í kringum litla kofann okkar. Í skjóli við einn útvörðinn gat að líta þessa stjúpu, skærgula og glæsilega. Hún verkaði eins og ljósgjafi fyrir daginn sem reyndist verða einn af þeim ljúfustu á sumrinu. Þó var norðaustan tíu til fimmtán og hitinn aðeins sjö gráður.
Litlu síðar fórum við hjónakornin í stutta ökuferð um nágrennið. Margskonar líf og fegurð bar fyrir augu og gladdi okkur. Ég tók fáein sýnishorn með. Látum myndirnar tala.
Auðvitað gæti ég sagt svo margt um þennan dag með orðum. Hann verður okkur eftirminnilegur. En að sinni læt ég myndirnar nægja.
Dásamlegt!