Rússneski rithöfundurinn Nikolaj Gogol skrifaði bók um dauðar sálir. Hún segir frá bóndanum Pivínskí sem safnaði dauðum sálum, það er að segja, nöfnum látinna manna sem ekki höfðu verið strikuð út af endurskoðunarlistanum, andlát þeirra ekki verið tilkynnt yfirvöldum.
Þetta gerði Pivínskí til að afla sér heimilda til brennivínsbruggunar, en kerfið hafði sett þær reglur að aðeins þeir mættu iðka þessa iðn sem réðu yfir fleiri en 50 sálum.
Hugsunin á bak við „dauðu sálirnar“ og klókindi Pivínskís hefur alltaf hrifið mig nokkuð og á þessum krepputímum hér á Íslandi hefur mér í framhaldi verið hugsað til Alþingis. Þar sýnist oft sitja hópur dauðra sálna svo ég tali nú ekki um aðstoðarmenn alþingismannanna.
Þess vegna kemur mér í hug að nú þyrfti að taka til í kerfinu og vel við hæfi að hefja lagfæringar þar sem rót hins mikla vanda var getin. Í fyrsta lagi ætti að afnema eftirlaunalögin nú þegar. Þau eru þingheimi til skammar. Í öðru lagi að segja upp öllum aðstoðarmönnum alþingismanna, það getur varla verið brýn þörf fyrir þá nú.
Og í þriðja lagi væri upplagt að fækka alþingismönnum um 30 og mætti gera þá að aðstoðarmönnum hinna sem eftir sitja, út uppsagnarfrestinn. Með þessu mundu sparast miklar fjárhæðir sem nota mætti í raunverulegar þarfir þjóðarinnar.