Farþegar frá útlöndum

Það biðu um það bil sjötíu manns í salnum framan við dyr komufarþega í Leifsstöð í gær. Þetta var um fimmleytið. Flestir einblíndu á stóru dyrnar sem farþegarnir komu um. Sumir héldu á lofti spjöldum með nöfnum á, aðrir stóðu í hnöppum og ræddu málið, en aðrir drukku úr plastmálum. Fólk skipti um fót til að hvíla sig í biðinni eða hallaði sér upp að súlu.

Nærri komudyrunum stóð ungur maður með bakpoka. Litlu fjær var ungt par. Það hélst í hendur. Skammt frá því annað par. Pilturinn hélt utan um stúlkuna. Faðir með tvö börn litlu fjær. Það var mannmargt í salnum og margvísleg tungumál töluð. Ys við kaffivélina. Farþegar komu inn í litlum hópum. Fólk heilsaðist og kysstist. Útlendingar skimuðu um svæðið. Tóku svo á rás.

Smávaxin kona í gallabuxum, dökkklædd með bakpoka kom inn um dyrnar. Hún skimaði um. Fyrst nefndur ungi maðurinn sem einnig var með bakpoka breiddi út faðminn. Konan geystist í faðm hans. Þau kysstust. Löngum, löngum kossi. Hún kyssti andlit hans. Hann kyssti háls hennar, eyru og munninn aftur. Hollywood koss skall á. Hann ætlaði aldrei að enda.

Konan fór höndum um manninn. Hann kyssti háls hennar aftur, eyra og enni og munn. Þau þrýstu sér saman. Konan togaði manninn að sér og munnar þeirra festust í lostafullum núningi. Mörgum varð starsýnt á þau. Unga parið sem staðið hafði litlu fjær smitaðist af atlotum hinna og tóku að kyssast af sama ákafa. Þriðja parið gat heldur ekki hamið sig.

Eftir tuttugu og fimm mínútur kom farþeginn minn inn um dyrnar. Við greiddum fyrir bílastæði hjá Securitas. Á leiðinni út varð mér á að líta til baka. Fólkið var enn niðursokkið í kossa og atlot.

„Jæja, hvernig var í Berlín?“ spurði ég á leiðinni út að bíl. „Alveg stórkostlegt. Berlín er stórkostleg. Þið þyrftuð endilega að heimsækja hana.“ „Hvað er svona stórkostlegt við Berlín?.“ „Ég segir þér það á leiðinni inn eftir.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.