Gersemar í góðu bandi

Dustandi ryk af bókum í morgun, í orðsins fyllstu merkingu, staldraði ég við sex binda safn sem ber það elskulega heiti Íslenskar smásögur, 1874 – 1974. Endurfundir við bækurnar urðu til þess að ég gleymdi tuskunni og tók að fletta bókunum og rifja upp yndisleg kynni okkar.

Það verður ekki annað um þessar bækur sagt en að þær opni manni tvo glæsilega glugga út, já eða inn, í hundrað ára sögu „stuttra skáldverka í óbundnu máli, innan við sjö þúsund orð eða svo.“ Bækurnar skiptast í tvo megin flokka. Í fyrsta lagi sögur eftir íslenska höfunda og í öðru lagi sögur eftir útlenda höfunda, þýddar af Íslendingum.

Fyrstu þrjú bindin innihalda 71 smásögu eftir íslenska höfunda, frá Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar til Skemmtiferðar Thors Vilhjálmssonar. Seinni flokkurinn, 73 sögur í þrem bindum, hefst á sögu Ludwigs Tiecks, Ævintýr af Eggerti Glóa og endar á sögunni Maðurinn sem safnaði vindum, eftir Ingvar Orre.

Á meðal útlendinganna eru alkunn nöfn úr heimsbókmenntunum. Nöfn sem allir þekkja og margir elska og hafa þegið mikla ánægju af að lesa. Urðu þessir endurfundir ánægjulegir og tími kominn til að endurlesa bestu bitana á næstu vikum.

Bækurnar, Íslenskar smásögur, 1874 – 1974 og Íslenskar smásögur, Þýðingar, I – VI, voru gefnar út af Almenna bókafélaginu á árunum 1982 til 1985. Ritstjóri var Kristján Karlsson og valdi hann sögurnar ásamt Þorsteini Gylfasyni. Bækurnar eru í vönduðu bandi og í huga mínum eru þær gersemar. Gersemar í góðu bandi..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.