Alltaf hef ég verið heillaður af gáfuðum mönnum. Hef þó gjarnan skipað þeim í tvo megin hópa. Veit að það er mikil einföldun. Annar hópurinn er þannig að ég taldi mig betur settan í hæfilegri fjarlægð frá honum svo að minnimáttarkenndin þrýsti mér ekki ofaní jörðina. Stundum henti það að einungis hausinn á mér stóð upp úr og þá var ég lengi að ná mér upp á yfirborðið aftur.
Hinn hópurinn, eða eigum við að segja einstaklingarnir sem teljast til hans, verkaði þveröfugt við þann fyrri. Gáfur einstaklinga hans voru/eru svo þroskaðar að flestir sem nutu af nálægð þeirra skynjuðu lífið á viðráðanlegri hátt. En svo er auðvitað til fullt af fólki sem hefur á sér orð fyrir gáfur, þótt vitsmunir þess séu í rauninni engar sérstakar mannvitsbrekkur.
Í gegnum tíðina hefur þróast með mér sá skilningur á gáfum að þær séu harla rýrar, mjóslegnar, vanti í þær mannkærleika. Í þeim bókum sem ég hef verið að lesa síðustu misseri sem og þeim sem ég hef sótt mér uppörvun til í gegnum tíðina, sýnist mér að þeir höfundar og hugsuðir sem sígildir eru, þ.e. hafi fullt gildi í hverri nýrri kynslóð, einkennist flestir af mannskilningi og mannelskandi anda.
Markmið þeirra, í gegnum aldirnar, hafi verið að skila af sér orðræðu, textum, sem uppörvi fólk og auki við það fremur en dragi það niður. Í glymjanda samtímans virðist mér meira lagt í neikvæða umræðu, þar sem einstaklingar og hópar leggi sig fram um að ýta náunganum „niður í fljótið“, svo vitnað sé í Dante, fremur en að létta göngu hans og glímu við tilveruna. Þangað til það kemur að þeirra eigin málum. Þá sýnist farið mildari orðum um hlutina.