Það fór nú þannig á þessum fyrstu erfiðu tíu dögum, sem að baki eru, að bækur og bókmenntir hópuðust að mér með elsku og örlæti og urðu mín mesta huggun fyrir utan óendanlega umhyggju og elsku eiginkonunnar. Að sjálfsögðu. Ekkert tekur henni fram. En bækurnar, með þeim komu hinir ýmsu höfundar til sögunnar og persónur sagnanna og settust á rúmgaflinn og ræddu málin. Það var elskulegt samfélag.