Mannshöfuð er nokkuð þungt…

Það gladdi mig að heyra að Ljóðhús, bók Þorsteins Þorsteinssonar um skáldskap Sigfúsar Daðasonar, skyldi hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Ég var svo heppin í júní síðastliðnum að Ásta mín gaf mér bókina sem hefur verið meira og minna uppi við síðan og flett í henni fleiri daga. Þetta er skemmtileg bók sem brýtur upp skáldskap Sigfúsar og gefur sýn á fleiri hliðar hugsana hans.

Margir eru sammála um að Sigfús hafi verið alvöruskáld, eða skáld alvörunnar, allavega sinnar eigin alvöru mundi ég segja. Enda hef ég sáralítið vit á ljóðagerð þótt ég hafi stundum nokkra ánægju af þeim. Nafnið á pistlinum er úr einu ljóða Sigfúsar, þar sem segir:

Mannshöfuð er nokkuð þungt,
en samt skulum við standa uppréttir…

Á einum stað vitnar Þorsteinn í bréf Sigfúsar skrifuðu í Frakklandi 1951 til vinkonu sinnar. Þar segir: „Hérna er líkt og í Grindavík, aldeilis prýðilegt, dálítið kalt stundum, allt niður í 6 stig á daginn, frost eina nótt nýlega. […] kettirnir mjálma alveg djöfullega í portinu, alltaf breima.“

Sigfús notar svo þessi orð í ljóðinu Hendur og orð:

„Kettir eru með andstyggilegustu kvikindum og væla í portinu
en oft verður þeirra væl ekki aðgreint
frá gráti kornabarns í næsta húsi
í næsta húsi sem ekki er mitt hús.“

Ég leyfi mér að óska Þorsteini til hamingju með verðalaunin. Bók hans Ljóðhús hjálpa litlum körlum eins og mér til skilnings á alvörugefnu ljóðskáldi.

Því miður hef ég ekki séð Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Óska honum einnig til hamingju með sín verðlaun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.