Hvað táknar jatan?

Skötuveislan í gær fór eins vel og best varð á kosið. Fólk dreif að um eittleytið og fljótlega hófst veislan. Skatan var vel kæst, kartöflurnar góðar og tólgin príma. Sama má segja um þrumarann. Magnþrunginn þögn lagðist yfir borðstofuna þegar fyrsta umferð var snædd.

Svo virtust allir fyllast af kátínu og tóku að masa hver um annan þveran og fengu aftur á diskana. Þetta var vel heppnuð veisla eins og vera ber og húsbóndinn þjónaði til borðs. Á fimmta tímanum var allt yfirstaðið og hver fór til síns heima. Tími uppþvottavélarinnar rann upp og hlaut hún enn einu sinni ómælda aðdáun og ástarhjal.

Í dag er svo kalkúnn kominn í ofninn. Hitamælir í þykkasta vöðvanum mjakast í átt að 79°C. Það verður snæddur hátíðarréttur í kvöld. Við verðum þrjú saman, dóttirin Gunnbjörg, mamman og pabbinn. Það er þægilegur fjöldi. Og við rifjum upp löngu liðin jól, aðfangadagskvöld, þegar öll börnin voru börn og allt jólahaldið snérist um að gleðja þau. Þá var gaman. Þá var ákaflega gaman og lífið einfalt og barmafullt af einlægu þakklæti og gleði.

Ég finn fyrir þægilegum tilfinningum í sálinni, mjúkri tilhlökkun tengdri þakklæti til almættisins, Guðs, fyrir þá undursamlegu gjöf sem hann gaf mönnunum og minnst er á þessum dögum. Ekki skipta dagsetningar afgerandi máli í þeirri umfjöllun. Það er kjarni málsins sem er afgerandi, sá, að yður er frelsari fæddur.

Það glatast allt of margt fólk. Fólk á öllum aldri. Það er sorglegt og sárt. Afl trúarinnar er vanmetið. Það þykir lítillækkandi að leita til hennar. Mikil vanþekking og fordómar valda því og hið eilífa oflæti mannanna.

En orð frelsarans geiga ekki í hjörtum þeirra sem veita þeim viðtöku. Um það vitna menn með eigin persónulegri reynslu sinni. Og um jól lægja þeir huga sinn og lúta höfði við minninguna um lítið barn sem í algerri fátækt var vafið í tuskuræmur og lagt í jötu. Hvað táknar jatan?

Ég óska gestum heimasíðunnar einlæglega gleðilegrar jólahátíðar og friðar og sældar.

Eitt andsvar við „Hvað táknar jatan?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.