Tilbúnir þegar þú vilt

Þessi aðventudagur hefur nú þegar glatt mig heil býsn. Eins og fjölmörg undarfarin ár, á jólaföstunni, hef ég tekið frá tíma á hverjum degi til þess að lesa fræðibækur um trú og visku. Og það er segin saga að höfundar þeirra, hugsun og textar, lyfta mér upp og gleðja sálartetrið mitt, „lúð og þjáð.“

Þessa dagana hafa ýmsir höfundar, mér áður ókunnir að mestu, þótt ég hafi kannast við nöfnin þeirra, náð til mín og krafist samræðu um málefni trúar og visku. Í hópi þessara eru heilagir menn sem með sígildum texta hafa haft áhrif á hugsun og menningu kynslóðanna og markað þar spor og viðhorf sem hafa gert líf milljóna fólks bærilegra en alla hefði orðið.

Einnig gleður það mína litlu sál að ýmsir þessara mætu höfunda eiga sér stað í bókahillunum mínum frá fyrri árum og þegar þeir verða varir við að nú ætli ég að helga dagana visku og trú af meira afli en hversdagslega, þá er eins og þeir stígi fram og lyfti hendi til að vekja á sér athygli og segi: Við erum hérna enn, tilbúnir, þegar þú vilt.

Þannig hitti ég í gær Ágústínus og Játningar hans, las sjöundu og áttundu bók, Tómas frá Akvínó og aristóteliskar hugmyndir hans. Í dag kynntist ég mér nýjum mönnum, Meistara Eckhart, Jóhannesi Tauler og Heinrich Seuse, svo ég nefni nokkra sem margir ættu að kannast við, jafnt trúaðir sem vantrúaðir. Það gæti hjálpað.

Einnig hóf ég að lesa saman nýju biblíuþýðinguna 2007 og þessa frá 1982, sem ég á í stóru broti og hef verið bundinn við síðan hún kom út. Hóf samanburðinn á Jóhannesarguðspjalli sem er bóka dýrast og auðugast af speki. Þar eru nokkur þýðingaratriði sem verðugt væri að ræða og velta fyrir sér með öðrum. En það bíður betri tíma.

Endaði loks daginn með því að panta „Theologia Germanica “ hjá Amazon.com í Bandaríkjunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.