Ókunnug kona að vestan

Klukkan var um fimm, síðdegis, Ásta nýkominn heim úr vinnu og við ræddum málefni dagsins eftir disk af léttri fiskisúpu Tom Yum og hálfu heimabökuðu hamborgarbrauði úr Minna mittismáli Kristínar Gestsdóttur. Það var kyrrð í húsinu og gott að hittast í dagslok. Allt í einu kveinaði dyrasíminn úr anddyrinu og þegar ég tók upp símatólið sagði hvell konurödd: „Ég er bara ókunnug kona.“

Þetta kom á óvart og ég þagði við á meðan heilinn reyndi að átta sig. „Ég er ókunnug kona, en ég þekki fólk sem býr í blokkinni og það fólk er ekki heima. Má ég bíða hjá þér.“ Enn þurfti heilinn í mér smástund til að átta sig og mér varð litið á Ástu sem fylgdist með: „Nú, já,“ varð mér svo að orði. „Ég þekki líka fólk í næstu götu en það er ekki heima heldur. Má ég bíða hjá þér?“

Nú hafði heilinn í mér náð einhverjum tökum á uppákomunni og ég sagði: „Gjörðu svo vel,“ og ýtti á takka á veggnum sem opnaði útidyrnar niðri. „Hvað var þetta?“ spurði Ásta. „Ókunnug kona sem vill fá að bíða hérna eftir kunningjum sínum.“ „Það var sérstakt,“ sagði Ásta og ég undir tók það. Eftir nokkra stund kom konan upp, hún hafði gengið stigann, sjö hæðir, því hún kunni ekki á lyftuna.

Eftir að hafa kynnt sig, sagt nokkur deili á sér, – hún væri 77 ára, hefði verið bóndi á Barðaströnd alla tíð, þar til fyrir sautján árum þegar maður hennar dó, þá hefði hún flutt til Reykjavíkur, – þáði hún sæti og sagði: „Má ég horfa á Leiðarljós, ég fylgist alltaf með Leiðarljósi.“ Ég kveikti á sjónvarpinu og konan tók að horfa. Við Ásta horfðum nú hvort á annað, sögðum svo sem ekki neitt. Hvað er hægt að segja?

Ég reyndi að vera afslappaður og bauð kaffi. Hún þáði það og „mikla mjólk “ og þrjá mola. Inn á milli fengum við örstuttar setningar um búskapinn á svæðinu hennar, – þó með hléum eftir atburðarás Leiðarljóssins, – mjólkurneyslu í æsku, sauðfjárrækt og sölu á jarðarparti. Þá af einum og öðrum frænda. Þegar þættinum um Leiðarljós lauk stóð konan upp og rétti mér bókarkver, Vestfirskar vísur, eftir sjálfa sig. „Ertu skáld?“ spurði ég. „Já,“ svaraði hún.

Skömmu síðar kvaddi hún, þakkaði fyrir sig og fór. Við stóðum við Horngluggann og fylgdumst með henni ganga út götuna okkar og áleiðis upp brekkurnar til vinkonu sinnar en þær ætluðu saman vestur, á jeppa vinkonunnar. „Hún er líka að vestan og á alltaf kindur sem nágranni hennar þar sér um að mestu og fær að heyja túnin hennar í staðinn. Hún fer oft að hitta kindurnar. Það hafa samt oft verið meiri ber en í ár.“

Það er nú svo.

Eitt andsvar við „Ókunnug kona að vestan“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.